Unga fólkið dregst aftur úr

Tekjur ungs fólk hafa hækkað mun minna en annarra aldurshópa.
Tekjur ungs fólk hafa hækkað mun minna en annarra aldurshópa. mbl.is/Ómar

Tekjur yngstu aldurshópanna á Íslandi hafa dregist aftur úr tekjum annarra hópa. Þannig hafa ráðstöfunartekjur yngstu hópanna hækkað langminnst. Hækkun fólks undir þrítugu er mun minni en hjá öðrum hópum, að því er kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Farið er ofan í saumana á umræðu um lífskjör ungs fólks á Íslandi í Hagsjá sem hagfræðideild Landsbankans gefur út. Þar kemur fram að margir hafi talið lífskjör ungs fólks hafa dregist aftur úr kjörum annarra á síðustu árum. Í því samhengi er talað um svokallaða Y-kynslóð eða aldamótakynslóðina, fólk sem er fætt á tímabilinu 1980 til 1994. Því hefur verið haldið fram að það sé erfiðara fyrir þessa kynslóð að finna vinnu og húsnæði en áður hefur verið og að leiðin að fullorðinsárum sé lengri og torsóttari en áður. 

Séu ráðstöfunartekjur skoðaðar eftir aldursbilum hér á landi má sjá að tekjurnar eru jafnan mestar hjá fólki á miðjum aldri. Séu árin 1990 og 2014 borin saman má glöggt sjá að yngstu hóparnir eru mun meira fyrir neðan meðaltal allra 2014 en var 1990, sem er t.d. öfugt á við elstu hópana sem voru nær meðaltali allra í lok tímabilsins. Á árinu 1990 var aldurshópurinn 25-29 ára nálægt meðaltali, en á árinu 2014 var sá hópur kominn langt undir meðaltal og aldurshópurinn 30-34 ára nálægt meðaltalinu, að því er segir í Hagsjánni.

Breytingar á ráðstöfunartekjum frá 1990 til 2014 eru mjög mismunandi eftir aldurshópum. Meðalbreyting allra er 40% en mestu frávikin frá meðaltalinu voru 18% lækkun og 60% hækkun. Hækkun ráðstöfunartekna er langminnst hjá yngstu hópunum. Þannig hafa þeir sem eru undir 40 ára aldri fengið minni hækkanir en allir aðrir aldurshópar. Hækkun aldurshópsins undir þrítugu er mun minni en hjá öðrum hópum.

Þessar tölur byggja á tölum Hagstofunnar um ráðstöfunartekjur þeirra sem einhverjar tekjur hafa. Niðurstaðan lítur úr fyrir að vera skýr, þ.e. að tekjur yngstu aldurshópanna hafa dregist aftur úr tekjum annarra hópa.

Erfiðara að afla sér húsnæðis

Augljósar skýringar á stöðunni eru ekki sagðar liggja fyrir í fljótu bragði. Líklegt sé að lengri skólaganga hafi áhrif. Þá sé kannski minna um uppgrip og góða tekjumöguleika ungs fólks en áður var, t.d. vertíðir. Vinnumarkaður sé orðinn tæknivæddari og sérhæfðari og mögulega sé borgað hlutfallslega betur en áður fyrir þekkingu og reynslu.

Samanburður yfir tíma sem byggður er á meðaltölum er sagður passa ekki sérlega vel fyrir ungt fólk. Mögulega gildi önnur launavísitala og önnur vísitala ráðstöfunartekna fyrir ungt fólk en meðaltal þjóðarinnar.

„Sé t.d. litið til áleitinnar spurningar eins og öflunar húsnæðis þarf að líta til þess að tekjuþróun yngstu aldurshópanna er væntanlega mun síðri en annarra. Þegar breytingar á aðstæðum á húsnæðismarkaði, eins og t.d. að ekki er lengur hægt að kaupa húsnæði sem ekki er fullklárað eins og oft tíðkaðist fyrr á árum, má væntanlega álykta sem svo að erfiðara sé fyrir ungt fólk í dag að afla sér húsnæðis en var í upphafi þess tímabils sem hér var skoðað,“ segir í Hagsjánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert