Mikil umferðarteppa skapast á Grensásvegi, úr norðri í suður, á álagstímum, á meðan framkvæmdir við þrengingu Grensásvegar standa yfir, en framkvæmdirnar hófust snemma í aprílmánuði.
´'I umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ólafur Kr. Guðmundsson, varaformaður FÍB, að eftir breytingar, bæði á Grensásvegi og aflagningu beygjuvasa af Bústaðavegi inn á Grensásveg, aukist slysahætta og umferðarteppur.
„Þar fyrir utan er neyðarþjónusta Landspítalans í Fossvogi. Þess vegna er það í mínum huga alveg glatað að ráðast í þessa framkvæmd. Það var hægt að leysa þetta og það var bent á það af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, að hægt væri að búa til hjólastíg öðru megin við Grensásveg, austan megin, og mjókka miðeyjuna, sem samsvaraði einni akrein. Flutt var tillaga um þetta af sjálfstæðismönnum, sem var snarlega felld,“ segir Ólafur.