Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála stofnað

Stjórnstöð ferðamála er ætlað að starfa til ársins 2020.
Stjórnstöð ferðamála er ætlað að starfa til ársins 2020. mbl.is/Styrmir Kári

Íslenska ríkið og Samtök ferðaþjónustunnar hafa í dag stofnað formlega sérstakt sameignarfélag utan um rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Nafn þess er Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála og er það í 50% eigu ríkissjóðs og 50% eigu Samtaka ferðaþjónustunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.

Fram kemur, að Stjórnstöð ferðamála sé samráðsvettvangur, skipaður af forsætisráðherra í kjölfar þess að samkomulag var undirritað þann 6. október sl. milli ríkisstjórnar Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2020. Stjórnstöð ferðamála tekur þó ekki með neinum hætti yfir ábyrgð og skyldur stjórnvalda eða hagsmunasamtaka greinarinnar.

Tilgangur hins nýstofnaða félags er að halda utan um starfsmannamál og almennan rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Starfsmenn félagsins skulu sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin af Stjórnstöð ferðamála í samræmi við Vegvísi í ferðaþjónustu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Samtök ferðaþjónustunnar gáfu út í október 2015.

Staða framkvæmdastjóra auglýst laus til umsóknar

Stjórnstöð ferðamála er ætlað að starfa til ársins 2020 og var Hörður Þórhallsson ráðinn framkvæmdastjóri tímabundið til sex mánaða til að koma verkefninu af stað. Hann mun hverfa til annarra starfa og starf framkvæmdastjóra verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert