Tekjujöfnuður mestur á Íslandi

Peningar, seðlar, krónur reikningar skuldir lán vanskil
Peningar, seðlar, krónur reikningar skuldir lán vanskil mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Hvergi í Evrópu er jafnmikill tekjujöfnuður og á Íslandi samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu en í úttekt Eurostat er byggt á tölum frá árinu 2013. Jöfnuður tekna á Íslandi hafi aldrei verið meiri áður en það ár en þá hafi Íslendingar farið fram úr Norðmönnum í tekjujöfnuði samkvæmt svonefndum Gini-stuðli. Árin ár á undan hafi Norðmenn verið lægstir í þeim efnum.

„Eurostat skilgreinir þá sem eiga á hættu að verða fátækt að bráð sem þá einstaklinga sem eru með lægri ráðstöfunartekjur eftir opinberar tilfærslur en sem nemur 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Á Íslandi eru 7,2% þjóðarinnar með ráðstöfunartekjur undir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna sem er mun lægra en hlutfall annarra Evrópuríkja. Hlutfallið mælist á bilinu 11 til 15% á hinum Norðurlöndunum en er 16,3% að meðaltali í Evrópusambandinu. Miðgildi tekna er svipað á Íslandi og í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi en tekjur eru hærri í Noregi.“

Fram kemur að Eurostat beri einnig tekjur þess fimmtungs þjóðarinnar sem hafi hæstar tekjur, það er efstu 20%, og beri þær saman við tekjur þess fimmtungs sem hafi lægstu tekjurnar. „Þetta hlutfall er einnig lægst á Íslandi af öllum Evrópuríkjum. Þau 20% þjóðarinnar með hæstar tekjur hafa rúmlega þrefaldar ráðstöfunartekjur þeirra 20% sem lægstar hafa tekjurnar. Hlutfallið er á bilinu 3,4 til 4,1 á hinum Norðurlöndunum en er 5,2 að meðaltali í ESB.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert