Moussaieff-keðjan hefur malað gull

Fjölskylda Dorrit Moussaieff hefur rekið ábatasama skartgripasölu.
Fjölskylda Dorrit Moussaieff hefur rekið ábatasama skartgripasölu. mbl.is/Kristinn

Umsvif Moussaieff Jewellers Limited (MJL) hafa margfaldast síðustu 20 ár og eru eignirnar orðnar 233 milljónir punda, ríflega 41 milljarður króna miðað við núverandi gengi. Félagið er í eigu Alisu Moussaieff, móður Dorritar Moussaieff forsetafrúar.

Fram kemur í Sögu af forseta, ævisögu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, að þegar Dorrit var 12 ára fluttist Shlomo Moussaieff, faðir hennar, með fjölskylduna til London „og þar hefur síðan verið miðstöð demantaverslunar hans sem er ein af þeim þekktustu í heimi“.

„Meðalverð á hálsmeni í verslun Moussaieffs á Hilton-hótelinu við Park Lane í Lundúnum er yfir 100 milljónir króna. Sagt er að veltan í þeirri verslun sé sú allra mesta í heiminum á fermetra. Auk þess á fjölskyldan verslunina Kutchinsky á Knightsbridge í London,“ segir m.a. um þessi umsvif í ævisögunni.

MJL hét upphaflega Ariel Heller & Co. Limited og var stofnað í mars 1963. Í stjórn sátu Ariel Heller, Shlomo og Alisa Moussaieff, foreldrar Dorritar, og Seymour Cooper. Samkvæmt vefsíðu MJL er félagið með verslanir á Park Lane og við Bond Street í Lundúnum, auk verslana í Genf, Hong Kong og Courchevel.

Rafræn skráning frá 1995

Fyrsti ársreikningurinn sem er aðgengilegur á rafrænan hátt í bresku fyrirtækjaskránni er frá árinu 1995. Nokkrar lykiltölur úr rekstri félagsins allar götur síðan eru hér á töflu. Miðað er við hagnað af reglulegri starfsemi fyrir skatta.

Frá og með árinu 1995 eru Shlomo og Alisa stjórnendur og hluthafar, bæði með 5.000 hluti.

Tilkynnt er í janúar 2006 að Shlomo sé hættur sem ritari félagsins og að í staðinn komi Rohit Gupta. Um sama leyti er tilkynnt að heimilisfang Shlomo og Alisa sé í Ísrael. Alisa er skráð fyrir hlutafé. Þarna eru þau bæði orðin allroskin. Alisa er fædd í ágúst 1929 og Shlomo í september 1923. Hann lést í fyrra.

Eins og sjá má á töflunni er hlutur Bretlands í sölunni jafnan lítill.

MJL hefur jafnan skipt við Barclays Bank. Á tímabili skipti félagið þó líka við Republic National Bank of New York. Þá kemur fram að félagið átti eftirlaunasjóðinn The Kutchinsky Pension Trust. Síðar er getið um LHC Pension Scheme sem eftirlaunasjóð hjá félaginu.

Þá er greint frá því í ársreikningi 1997 að Moussaieff Jewellers Limited sé tengt félaginu Kevess S.A. í Sviss. Þar séu Alisa og Shlomo í stjórn og hluthafar. Kevess er síðan áfram í ársreikningum félagsins.

Lesa má úr ársreikningunum að stjórnarlaun Alisu og Shlomo eru jafnan nokkur hundruð þúsund punda. Fjárhagsárið 1996 fengu þau t.d. 404.666 pund í laun hvort. Allar tölur hér eru á verðlagi hvers árs.

Skráð á Bresku Jómfrúaeyjum

Í ársreikningi 2000 er getið um tengsl við félagið Lasca Finance Limited og aðgerðir til að styðja við annað félag, Camden Market Holdings Corporation. Lasca Finance er með heimilisfang á Bresku Jómfrúaeyjum en ekki er getið um heimilisfang hins félagsins. Fram kemur að Shlomo og Alisa séu hluthafar í Lasca Finance, jafnframt því sem MJL eigi hlut í félaginu. Fjallað hefur verið um Lasca Finance í tengslum við Panama-skjölin.

Samkvæmt The Guardian er Dorrit einn eiganda Jaywick Properties Inc. á Bresku Jómfrúaeyjum. Félag með slíku nafni er ekki skráð á fulltrúa Moussaieff-fjölskyldunnar í Bretlandi. Þá var hún sögð tengjast sjóðnum Moussaieff Sharon Trust.

Gögnin voru frá árunum 2005-7.

Vísað var í þá áætlun Sunday Times að auður Moussaieff-fjölskyldunnar væri um 200 milljónir punda, eða um 35 milljarðar króna.

Í umfjöllun Kjarnans sagði að Moussaieff-fjölskyldan, þar á meðal systur Dorritar, Tamara og Sharon, hafi átt allt að 80 milljónir dala í HSBC bankanum í Sviss 2006-07.

Það er tekið fram í ársreikningum MJL 2002 og 2003 að þrengingar á alþjóðamörkuðum, meðal annars í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana, hafi bitnað á sölu á lúxusvörum.

Árið 2006 fær Alisa rúma milljón punda í vaxtalaust lán frá félaginu og í ársreikningi 2015 er getið um félagið Moussaieff (Hong Kong) Limited í Hong Kong. Alisa var þar skráður eigandi og hjá Kevess S.A.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert