Gísli Marteinn biðst afsökunar

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson. mbl.is/Kristinn

 „Þetta er dæmi um mál þar sem við vorum of fljót að dæma. Meðferð nauðgunarmála þarf að breytast, en þetta var ekki rétt leið.“ Þetta skrifaði Gísli Marteinn Baldursson fjölmiðlamaður á Twitter í gær.

Þann 9. nóvember á síðasta ári deildi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftirfarandi texta á Twitter: „Í dag, mánudag, verður lögreglan með ómerktan bíl við hraðaeftirlit, en mælt verður við Digranesveg í Kópavogi og Baugshlíð í Mosfellsbæ.“

Þetta var sama dag og Fréttablaðið birti forsíðufrétt þess efnis að tveir karlmenn væru grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot. Voru mennirnir sagðir hafa brotið á tveimur konum í íbúð í Hlíðunum sem hefði verið útbúin til nauðgana. Þá kom einnig fram að mennirnir væru ekki í gæsluvarðhaldi vegna málsins og vakti það töluverða reiði í samfélaginu.

Gísli Marteinn svaraði tísti lögreglunnar á eftirfarandi hátt og vísaði í mál mannanna: „Einhver séns að hann kippi þessum nauðgurum sem þið slepptuð uppí ef þið rekist á þá?“ Fjörutíu og einn deildi færslunni og rúmlega fimm hundruð manns „lækuðu“ færsluna.

Í gær svaraði Gísli Marteinn færslunni aftur með þessum orðum: „Þetta er dæmi um mál þar sem við vorum of fljót að dæma. Meðferð nauðgunarmála þarf að breytast, en þetta var ekki rétt leið.“

Því fylgdi hann eftir með þessu: „Enginn dómur var fallinn og þótt við reiðumst eigum við að treysta dómstólum og bíð með dóma þar til niðurstaða liggur fyrir.“

Í lokin segir hann: „Tek fram að þetta er ekki skrifað vegna neinna hótana um málsókn. Hef engar slíkar fengið. Ætlaði að vera búinn að þessu fyrr.“

Vil­hjálm­ur Hans Vil­hjálms­son, lögmaður tveggja karl­manna sem kærðir voru fyr­ir nauðgan­ir seint á síðasta ári, sendi tutt­ugu og tvö kröfu­bréf fyrir viku og gaf frest til miðnætt­is mánu­dag­inn 2. maí til að bregðast við kröf­un­um. 

Í bréf­un­um var viðtak­end­um boðið að setja fram op­in­bera af­sök­un­ar­beiðni vegna um­mæla sinna, draga þau til baka og greiða skaðabæt­ur. Yrði það ekki gert geta þeir gert ráð fyr­ir að þeim verði stefnt vegna um­mæl­anna.

Af­sök­un­ar­beiðni vegna málsns var birt á frétta­vef DV.is síðastliðið miðvikudagskvöld. Þar sagði að blaðið og fyrr­ver­andi blaðamaður DV biðjist af­sök­un­ar á því sem ofsagt hafi verið í þrem­ur frétt­um af Hlíðamál­inu, sem birt­ar voru 9. nóv­em­ber í fyrra.

Frétt mbl.is: DV biðst afsökunar vegna Hlíðamálsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka