Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, er sáttur við þá ákvörðun Árna Páls Árnasonar að hætta við að gefa kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður Samfylkingarinnar. „Það lýsir baráttuþreki Árna Páls að hann hefur haldið möguleikanum á að leiða áfram Samfylkinguna opnum fram á síðustu stund,“ segir Helgi Hjörvar.
„Hann hefur á undanförnum vikum gengið fram af einurð í þeim stóru spillingarmálum sem gengið hafa yfir samfélagið og framganga hans hefur skapað honum virðingu Samfylkingarinnar.“ Það sé hins vegar mat Árna Páls nú að best sé að gefa öðrum tækifæri til þess að leiða flokkinn. „Mér finnst það góð ákvörðun og vona að hún verði bæði honum og flokknum farsæl.“
Helgi Hjörvar tilkynnti í febrúar að hann gæfi kost á sér sem formaður Samfylkingarinnar og segir hann ákvörðun Árna Páls óneitanlega hafa áhrif á kosningabaráttu formannsefnanna. „Þetta hefur auðvitað áhrif á formannskjörið. Það er allt önnur kosningabarátta sem fer fram þegar að sitjandi formaður er ekki í kjöri því þá er verið að velja einfaldlega á milli ólíkra nýrra kosta.“