Síðustu daga hafa margar spurningar vaknað um eignir Dorritar Moussaieff, eiginkonu forseta Íslands, tengsl hennar við aflandsfélög, skattagreiðslur hennar og lögheimili. Fjölmiðlar hafa ítrekað óskað eftir viðtölum og sent fyrirspurnir en ekki alltaf haft erindi sem erfiði.
„No, no, no, no, no, that is not going to be the case,“ svaraði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þegar fréttakonan Christiane Amanpour á CNN spurði hann hvort eitthvað ætti eftir að koma í ljós um hann eða fjölskyldu hans í umræðunni um skattaskjól. Þetta var föstudaginn 22. apríl.
Mánudaginn 25. apríl greindu Kjarninn og Reykjavík Grapevine aftur á móti frá því að fjölskylda Dorritar Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar, hefði átt aflandsfélag sem skráð var á Bresku Jómfrúareyjunum frá 1999 – 2005. Félagið, Lasca Finance Limited, kemur fyrir í Panama-skjölunum.
Kjarninn sendi embætti forseta Íslands fyrirspurn vegna félagsins. Í svarinu sem barst sagði: „Hvorki forseti né Dorrit vita neitt um þetta félag né hafa heyrt af því áður. Faðir Dorritar er látinn og móðir hennar, sem er 86 ára, man ekki eftir neinu slíku félagi.“
Hvorki Ólafur Ragnar Grímsson né Dorrit Moussaieff hafa átt kröfur í slitabú föllnu bankanna. Eignir Dorritar eru í Bretlandi og eignir Ólafs eru á Íslandi. Þetta kom fram í svari Árna Sigurjónssonar, skrifstofustjóra á skrifstofu forseta forseta Íslands, við fyrirspurn mbl.is þennan dag.
mbl.is sendi fyrirspurn til forseta með nokkrum spurningum sem Kári Stefánsson bar upp í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Þar spurði hann hverjar eignir forsetahjónanna væru og hvar þær væru geymdar. Þá spurði hann hvort þau ættu kröfur á föllnu bankanna og hvers vegna opinber gjöld af erlendum eignum hjónanna væru ekki greidd á Íslandi. Í stuttu svari segir að Dorrit sé breskur ríkisborgari með lögheimili í Bretlandi. Þar hafi hún og fjölskylda hennar búið og stundað atvinnu í áratugi. Hún greiði því skatta í Bretlandi.
Í þjóðskrá eru Ólafur og Dorrit skráð sem „hjón ekki í samvistum“. Dorrit flutti lögheimilið til Bretlands árið 2012. „Þegar horfur voru á að eiginmaður minn yrði ekki lengur forseti gerði ég ráðstafanir til að geta sinnt meira fyrri störfum mínum í London, einkum í ljósi þess að foreldrar mínir, sem stjórnað hafa fjölskyldufyrirtækinu, eru nú háaldraðir,“ sagði í yfirlýsingu frá Dorrit árið 2013 þegar fjölmiðlar spurðust fyrir um flutningana.
Þriðjudaginn 26. apríl sendi blaðamaður mbl.is eftirfarandi fyrirspurn til Ólafs Ragnars:
Í fréttum Kjarnans og Grapevine í gær kom fram að félag í eigu fjölskyldu Dorritar Moussaieff hafi verið skráð á Bresku Jómfrúareyjunum frá árinu 1999 til ársins 2005. Félagið, sem heitir Lasca Finance Limited, er að finna í gögnum frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca. Árið 2005 seldi fjölskyldufyrirtækið Moussaieff Jewellers Ltd. tíu prósenta hlut sinn í Lasca Finance til hinna tveggja eigenda þess. Þeir voru S. Moussaieff og „Mrs.“ Moussaieff.
Hafa þessar upplýsingar einhver áhrif á framboð þitt til forseta Íslands? Ef svo er, hvaða áhrif hafa þær?
Ætlið þið hjónin að gera upplýsingar úr skattaskýrslum ykkar opinberar líkt og nokkrir stjórnmálamenn hafa gert að undanförnu?
Sama dag barst svar þess efnis að forsetinn hefði ekki mótað afstöðu til spurninganna. Blaðamaður ítrekaði fyrirspurn sína með tölvupósti daginn eftir og einnig mánudaginn 2. maí. Einnig hefur verið haft samband við Örnólf Thorsson forsetaritara vegna málsins en enn sem komið er hefur Ólafur Ragnar ekki svarað fyrirspurn mbl.is.
Mánudaginn 2. maí greindi Reykjavík Media frá því að Dorrit hafi tengst minnst fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum. Greindi fjölmiðillinn einnig frá því að Dorrit hefði ekki viljað svara spurningum um hvort hún tengdist félögunum þegar eftir því var leitað. Sagði hún að viðskipti sína hefðu alltaf verið í samræmi við lög og að þau væru einkamál.
Í yfirlýsingu sem send var Reykjavik Media sagði Dorrit að fjárhagur sinn og Ólafs Ragnars væri og hefði alltaf verið aðskilinn og þá sagði forsetaritari í skriflegu svari að forsetinn hefði enga vitneskju um félögin og að hann hefði aldrei heyrt um þau. Þá sagði í svari Örnólfs að forsetinn hefði aldrei haft upplýsingar um aðra meðlimi Moussaieff fjölskyldunnar.
mbl.is sendi forseta fyrirspurn vegna málsins eftir að upplýsingar Reykjavík Media lágu fyrir. Í svari forsetaritara sagði að forseti þekki ekki til fjárhagstengsla eiginkonu sinnar við foreldra sína eða aðra í fjölskyldu hennar.
„Í svari [Ólafs Ragnars] til blaðamanns Guardian fyrr í dag kom fram að hann hefði aldrei heyrt um þau atriði sem nefnd voru í fréttinni né hefði hann nú eða nokkru sinni haft vitneskju um fjárhagstengsl konu sinnar við foreldra sína eða aðra í fjölskyldunni; né um áform foreldra hennar að þeim látnum. Hann vissi því ekkert um málið. Jafnframt áréttaði forseti að hann hefði ávallt verið mjög gagnrýninn á aflandsfélög og skattaskjól, og í áratugi talað fyrir réttlátu og sanngjörnu skattkerfi,“ sagði í svari Örnólfs
Fimmtudaginn 5. maí sendi Dorrit síðan frá sér yfirlýsingu og sagði hún að í henni fælist viðbrögð við vangaveltum og ónákvæmum yfirlýsingum og fullyrðingum í fjölmiðlum.
Lausleg þýðing mbl.is á yfirlýsingu Dorritar:
Yfirlýsing Dorritar Moussaieff
Vangaveltur og ónákvæmar yfirlýsingar og fullyrðingar hafa verið settar fram í ýmsum blaðagreinum. Til leiðréttingar vil ég koma eftirfarandi á framfæri:
1. Ég hef aldrei átt bankareikning hjá HSBC né hef ég átt í viðskiptum við bankann.
2. Skírskotað hefur verið til tengsla minna við fyrirtæki að nafni Jaywick Properties Inc. Jaywick var fyrirtæki sem tengist foreldrum mínum og var afskráð 2001. Ég hagnaðist ekki á Jaywick áður eða eftir að það var afskráð.
3. Þegar ég var skráð til heimilis á Íslandi uppýsti ég íslensk skattayfirvöld um viðkomandi hagsmuni mína. Ég sá íslenskum skattayfirvöldum einnig fyrir eintaki af skattskýrslu minni til breskra skattayfirvalda.
4. Ég hef aldrei rætt fjármál fjölskyldum minnar eða fjárhagslega tilhögun við eiginmann minn þar sem um er að ræða einkamál foreldra minna.
5. Ég er nú búsett í Bretlandi þar sem ég hef veitt breskum skattayfirvöldum viðhlítandi upplýsingar