Rektorar landsins vonsviknir

Flogið yfir Háskólann í Reykjavík.
Flogið yfir Háskólann í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Rektorar allra háskóla á Íslandi lýsa miklum vonbrigðum með að háskólar verði skildir eftir í þeirri sókn í íslensku samfélagi sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarninnar fyrir árin 2017–2021 gerir ráð fyrir. Þar er gert ráð fyrir verulegri heildarútgjaldaaukningu sem endurspeglast ekki í fjárveitingum til háskóla- og rannsóknarstarfs.

Þetta kemur fram í sameiginlegri ályktun rektora íslenskra háskóla.

„Skýrslur OECD hafa sýnt fram á með óyggjandi hætti að íslenskir háskólar eru verulega undirfjármagnaðir og fá til að mynda helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar á Norðurlöndum. Þrátt fyrir að skýrt sé sagt í stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs að framlag á hvern háskólanema verði sambærilegt við Norðurlöndin árið 2020, er ekkert í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun næstu fimm ára sem bendir til þess að nokkur breyting verði á fjármögnun háskóla hér á landi,“ segir í ályktuninni.

„Menntun er lykill að velsæld þjóða og rannsóknir eru drifkraftur framfara. Þess vegna er núverandi tillaga að fimm ára fjármálaáætlun ekki einungis vonbrigði heldur mun hún, verði hún samþykkt óbreytt, hafa verulega neikvæð áhrif á háskólanám, vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert