Allt aðrar kosningar í dag en í gær

Davíð Oddsson tilkynnti um framboð sitt til forseta Íslands fyrr …
Davíð Oddsson tilkynnti um framboð sitt til forseta Íslands fyrr í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru allt aðrar forsetakosningar í dag en í gær,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Baldur segir fregnir af framboði Davíðs Oddssonar gjörbreyta forsetakosningunum en segir ómögulegt að segja til um það á þessum tímapunkti af hverjum hann mun taka fylgi.

Baldur segir baráttuna orðna pólitískari og með skýrari valkostum en í upphafi. „Nú erum við ekki aðeins með sitjandi forseta til 20 ára heldur líka annan þann stjórnmálamann sem mesta reynslu hefur á landinu og þeir hafa báðir mjög skýra stefnu. Hins vegar með aðra frambjóðendur sem eru yngri og boða aðrar áherslur, svo það eru nokkuð skýrir valkostir sem standa kjósendum til boða í þessum kosningum.“

Ólíkar afstöður forsetaframbjóðandanna

Baldur segir að ef marka megi það sem Davíð hefur áður sagt í stjórnmálum og sem ritstjóri Morgunblaðsins virðist það vera þannig að bæði hann og Ólafur Ragnar standi með því samfélagi sem þeir hafa sjálfir tekið þátt í að móta, báðir í stjórnmálum og Ólafur Ragnar sem forseti. „Þeir eru að ákveðnu leyti að tala fyrir þeim áframhaldandi stöðugleika eins og þeir sjá hann og hann birtist þeim og þeirra kjósendum,“ segir hann og heldur áfram: „Til dæmis með stjórnarskránna, að henni megi ef til vill breyta en þær breytingar eigi að vera hógværar og standa með þessu samfélagi eins og það hefur verið byggt upp“. Þá segir hann það hins vegar virðast vera að hinir frambjóðendurnir séu opnari fyrir meiri og róttækari stjórnarskrárbreytingum.

Hann bendir á að Ólafur Ragnar, Davíð og Andri Snær virðist eiga það sameiginlegt að vilja að forsetinn taki skýra afstöðu til einstakra mála og eigi ekki að hika við það þegar á reynir. Guðni Th. Sé hins vegar á annarri skoðun. „En á sama tíma hefur Guðni talað mjög afdráttarlaust gegn inngöngu Íslands að Evrópusambandinu og er því ekki alveg samkvæmur sjálfum sér með að forsetinn eigi ekki að vera „í liði“ eins og hann orðaði það“. Þá segir hann Ólaf Ragnar ef til vill hafa beitt embættinu á þann veg að erfitt sé fyrir forsetaframbjóðendur að hafna því að ætla að taka afstöðu í stórum deilumálum í samfélaginu, „en við eigum eftir að sjá það betur,“ segir Baldur.

Davíð með mildari tón til að ná til kjósenda

Baldur segir það hafa skinið í gegn í viðtalinu við Davíð í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að hann væri að reyna að höfða til breiðs hóps. „Davíð hefur verið mjög afdráttarlaus í sínum ritstjórapistlum í Morgunblaðinu en hann er farinn að breyta um stíl. Hann er að reyna að höfða til víðtækari hóps en lesendahóps Morgunblaðsins,“ segir hann og bætir við að Davíð hafi tekist mjög vel til með slíkt bæði sem borgarstjóri Reykjavíkur og sem formaður Sjálfstæðisflokksins í þingkosningum. Áhugavert verði því að sjá hversu breiðs hóps hann nái til.

„Það vakti athygli mína þegar ég hlustaði á Davíð á Bylgjunni í morgun að það var ekki ritstjóri Morgunblaðsins sem hélt utan um þennan beinskeytta penna á ritstjórnarskrifstofunni í Hádegismóum heldur var föðurlegri tónn í honum,“ segir Baldur. „Þarna var ekki maður sem var að ýta undir átök í samfélaginu eða skapa deilur með yfirlýsingum heldur var þetta maður sem sagði hvað honum fyndist en talaði föðurlega, mildum tóni til þjóðarinnar.“

Baldur segir áhugavert verða að fylgjast með kosningabaráttu Davíðs. „Það verður áhugavert að sjá ef hann notar þennan mildari tón, að hvaða marki hann muni höfða til kjósenda. Með þessum mildari tón getur hann höfðað til mun fleiri en kjarnafylgis Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokksins.“

Ekki ólíklegt að baráttan verði óvægin

Fleira vekur þó athygli í forsetakosningunum að mati Baldurs, eins og það hversu fáar konur eru í framboði og hvað þær konur sem eru í framboði fái takmarkaðan hljómgrunn. „Það voru margar mjög hæfar konur sem voru augljóslega að huga að því að fara í framboð og lýstu því yfir að þær væru að skoða það alvarlega, en þær fóru ekki fram. Þá er spurningin, án þess að menn vilji fullyrða um það, hvort þær hiki frekar við þessa baráttu en karlarnir,“ segir hann og heldur áfram:

„Það er ekki ólíklegt að þessi barátta gæti orðið óvægin. Við erum með tvo mestu þungavigtarmenn í íslenskum stjórnmálum sem munu takast á, og svo fólk sem hefur mjög lítinn eða engan þátt tekið í stjórnmálum.“ Baldur segir þó frambjóðendur í seinni flokknum, þá sérstaklega Guðni Th., Andri Snær og Halla vera óhrædd við að gagnrýna mótframbjóðendur sína og tala fyrir sínum málstað afdráttarlaust.

Að lokum segir Baldur að baráttan gæti orðið hörð, sérstaklega ef skoðanakannanir sýna að það sé mjótt á mununum.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir forsetakosningarnar gjörbreyttar.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir forsetakosningarnar gjörbreyttar. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gefur aftur kost á sér …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gefur aftur kost á sér í júní. mbl.is/Golli
Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi.
Guðni Th. Jóhannesson, forsetaframbjóðandi. mbl.is/Golli
Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi.
Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi. Mynd/Aðsend
Andri Snær Magnason, forsetaframbjóðandi.
Andri Snær Magnason, forsetaframbjóðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka