Davíð Oddsson býður sig fram til forseta Íslands. Þetta var kynnt í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Davíð segist ekki geta svarað því hvort hann hefði ekki boðið sig fram ef Ólafur Ragnar hefði ekki gert það. Ekki séu nema örfáir dagar síðan hann fór að velta þessu fyrir sér.
Davíð segist ekki hafa tekið því illa upp þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram 2012. Hann hafi ekki kosið hann þá, en hefði gert það ef ekki hefði verið nokkuð öruggt að hann hlyti kosningu. Því hafi fylgt öryggi að hafa Ólaf Ragnar á Bessastöðum þá.
„Mér fannst þetta ekki jafn rétt núna, þegar tíminn er orðinn svona langur og við þær aðstæður sem hann gaf upp,“ sagði Davíð.
Davíð segist ekki ganga að því sem vísu að hann eigi öruggan stuðningshóp. „Í forsetakosningum er það svo að það er ótrúlegt hverjir styðja hvern.“
Frambjóðandi til forsetaframboðs verði að ganga að því vísu að svo kunni að fara að hann tapi.
Páll spurði því næst hvernig hann muni taka því ef svo fari, hann sé ekki vanur að tapa kosningu? „Ég held að ég myndi tapa vel ef svo má segja. Ég er ekki lengi að grufla yfir því sem gengið er. Ef að þannig færi, sem vel getur verið, þá mun ég líta á það sem rétta niðurstöðu hver sem hún er. Fara á minn gamla vinnustað og byrja að skrifa."
Hann muni fara í leyfi frá störfum sínum sem ritstjóri Morgunblaðsins á næstunni. "Ég mun hverfa í sumarleyfi fljótlega eftir að þessi ákvörðun var tekin," segir Davíð.
Davíð kveðst hafa verið ánægður með það hvernig Ólafur Ragnar tók á Icesave málinu og Páll minntist þá á fjölmiðlalögin og að Davíð hafi ekki verið jafn sáttur með ákvörðun Ólafs Ragnars þá. „Varðandi fjölmiðlalögin voru þannig að þau tóku ekki gildi fyrr en eftir næstu alþingiskosningar, þannig að það var fráleitt að beita þessu valdi þá. Ég tel þó að í meginatriðum fram að þessu hafi hann staðið sig vel.“
Spurður hvort breyta eigi hlutverki forsetans til að breyta áfrýjunarvaldinu, segir Davíð að hann telji að að meginstofni til hafi þetta vald ekki verið misnotað. „En ég held að menn verði að fara mjög varlega með það.“ Misjafnt sé hvort fyrri forsetar hafi talið sig hafa þetta vald. „Ákvæðið er fyrir hendi að ég vil telja að þeir hafi allir, jafnvel Ólafur, beitt því varlega.“
Páll nefndi þá að Davíð hafi verið gagnrýnin í garð Ólafs Ragnars og Guðna Th. í síðasta Reykjavíkurbréfi sínu. „Menn verði að gæta hófs, en það er nauðsynlegt að vita hvaða menn eru á ferðinni og fyrirhvað þeir standa. Það verður að liggja fyrir.“ Sjálfur sé hann þannig að fólk þekki kosti hans og galla í gegnum fyrri störf.
Er þetta fyrsti þátturinn í umsjón fjölmiðlamannsins Páls Magnússonar.
Uppfært 11:49
Spurður hvað muni vinna með honum og hvað hann telji að vinni gegn sér nefnir Davíð óvissuástand innan lands sem utan. „Ég held að flestir meti það svo að forsetaembættið sé verið að leita að manni sem er til staða og sem getur brugðist við, en ekki til að taka þátt í veislum eða eiga fróðleg spjöll við erlenda gesti.“ Viss störf, m.a. starf forsetans sé þess eðlis að menn séu þar til að geta brugðist við aðstæðum sem upp geta komið. „Þar séu þá menn sem geta tekið ákvörðun og láta engann hræra í sér. Þetta eru eiginleikar sem ég tel mig hafa og hef nýtt, oftast nær til góðs, þeir myndu nýtast vel. Auk þess sem að ég væri kominn þarna til að láta gott af mér leiða og stilla til friðar.
Gallarnir væru hins vegar væntanlega að menn teldu hann hafa verið of lengi í pólitík og hafi fengið menn upp á móti mér. „En ég hef átt gott að starfa með fólki.“
Spurður hvort hann hafi átt eða eigi fé í aflandsfélögum svaraði Davíð: „Ég hef því miður aldrei verið svo fjáður eða hugmyndaríkur að eiga fé erlendis.“ Eina undantekningar sé ávísanareikningur sem hann hafi átt á námsárum í sumarskóla í Cambridge. „Það var í síðasta skipti sem ég var með ávísun í útlöndum.“
Páll spurði því næst hvort ekki sé nóg komið að einhverjir væru væntanlega þeirrar skoðunar að tími þeirra Ólafs Ragnars væri liðinn. „Þetta er sanngjörn spurning, en svo eru aðrir sem segja að svo að ekki að þessir menn hafi kosti sem enn megi nýta. Það eru vandamál hér, við erum með veikt þing og við þær aðstæður væri skrýtið að þjóðin myndi velja veikan forseta.“