„Við höfum verið að klóra okkur í hausnum yfir þessari yfirlýsingu því við vitum ekki hvað átt er við,“ segir Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks um yfirlýsingu uppljóstrarans á bakvið leka Panama-skjalanna svokölluðu, en þar sakar hann Wikileaks um að hafa hunsað ábendingar um gögnin.
Uppljóstrarinn segist í yfirlýsingunni hafa haft samband við nokkur fjölmiðlafyrirtæki, þar á meðal Wikileaks, og verið hafnað, áður en hann sendi skjölin á Süddeutsche Zeitung. Þýski miðillinn deildi þeim í kjölfarið með alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna, International Consortium of Investigative Journalists, sem veitti yfir 100 fjölmiðlafyrirtækjum aðgang að þeim.
Í yfirlýsingunni, sem birt var á vef Guardian og í kjölfarið í íslenskri þýðingu á vef Reykjavík Media, segir að forsvarsmenn Wikileaks hafi ekki svarað uppljóstraranum í gegnum svokallað tip line en Kristinn fullyrðir að Wikileaks haldi ekki úti slíku.
„Það er hægt að miðla upplýsingum til Wikileaks í gegnum Dropbox allan sólarhinginn. Það eru tiltölulega auðskiljanlegar leiðbeiningar á netinu um það hvernig á að koma upplýsingum á framfæri ef menn vilja og það þarf eilitla innsýn í tölvumál en ekki yfirgripsmikla,“ segir Kristinn. „Þetta eru ekkert sérstaklega flóknar aðgerðir og maður myndi eðli málsins samkvæmt halda að viðkomandi hefði eilitla tölvuþekkingu svo hann ætti að geta nýtt sér slíkt en við höfum engar upplýsingar um að slík nálgun hafi átt sér stað.“
Kristinn segir að ef haft hefði verið samband við Wikileaks með gögnin hefði þeim verið tekið með mjög jákvæðum hætti. Hugmyndafræði Wikileaks sé að birta upplýsingar, og slíkt þekki hann eftir sex ára starf hjá uppljóstrunarmiðlinum. Hann segir þó erfitt að fullyrða hvernig gögnin hefðu verið birt. „Ég hef ekki allar forsendur eins og samsetningu gagnanna svo það er erfitt að fullyrða hvernig unnið hefði verið úr þeim án þess að hafa séð þau, en það er lítið komið fram núna og ég hefði viljað sjá meira koma fram og einhverja áætlun eða áform um það að meira sjáist fljótlega.“
Segir hann samtökin sem unnið hafa úr því að birta gögnin, ICJ þar á meðal, stunda það sem þau kalla ábyrga blaðamennsku, en slíkt sé í andstöðu við hugmyndafræði Wikileaks. „Við höfum skilning á því að stundum þurfi að tefja úrvinnslu upplýsinga og taka tíma í hana en þegar uppi er staðið eiga upplýsingarnar að fara milliliðalaust til almennings.“
Kristinn segir magn upplýsinganna ekki slíkt að það hindri úrvinnslu eins og Wikileaks hefur unnið að áður með því að birta upplýsingarnar í leitarvél. „Árin 2010 og 2011 þegar við vorum að birta skjöl frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna þá var þeim mjatlað út smátt og smátt með stigvaxandi aukningu á meðan fjölmiðlar voru að vinna fréttir úr þeim, en fyrir rest var þetta aðgengilegt öllum í góðri leitarvél. Magn upplýsinganna er ekki slíkt að það hindri slíka úrvinnslu. Gögn í leitarvélum Wikileaks eru álíka miklar og þessi leki.“
Loks segir hann yfirlýsinguna áhugaverða í heild sinni. „Ég er sammála mörgu sem þar kemur fram, meðal annars hvað varðar nauðsyn þess að tryggja stöðu uppljóstrara.“