Þór, bor Jarðborana hf., er þessar vikurnar notaður til að bora vinnsluholu fyrir Orku náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun.
Borunin tekur nokkrar vikur, en holurnar eru gjarnan 2,5-3 km langar. Þær eru teknar á ská til að auka líkur á að hitta á gufuríkar sprungur á jarðhitasvæðinu og getur botn þeirra verið mörg hundruð metra frá lóðlínu frá holutoppi.
Skáborun gerir líka mögulegt að bora fleiri holur frá sama borplani og draga þar með úr umhverfisáhrifum á yfirborðinu. „Boranir af þessu tagi eru reglubundinn hluti reksturs virkjananna,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, talsmaður ON.