Fékk undirskrift frá Hollywood

Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur og forsetaframbjóðandi.
Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur og forsetaframbjóðandi. mbl.is/Þórður

Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur og forsetaframbjóðandi, fékk senda undirskrift alla leið frá Hollywood í Bandaríkjunum í dag. Vinkona hennar, sem starfar þar við kvikmyndagerð, vildi gjarnan styðja hana og framboð hennar.

Við fyrstu sýn mátti halda að frambjóðandinn væri búinn að landa kvikmyndasamningi þar ytra en Elísabet deildi færslu um málið á Facebook-síðu sinni í dag. Þar sagðist hún hafa verið komin að því að hafa samband við fjölmiðla og draga framboð sitt til baka þegar hún fá bíl frá fyrirtækinu FexEx keyra inn götuna.

„Þið trúið því aldrei en þetta var samningur frá Hollywood, það er verið að gera handrit um íslenska konu, einstæða móður, öryrkja með geðhvörf og alkhólisma, átta barna ömmu, hugsuð, verðlaunaskáld, öræfablóm...,“ sagði meðal annars í færslu hennar.

Þegar mbl.is náði tali af Elísabetu viðurkenndi hún að þarna væri fært í stílinn. Ekkert tilboð hefði verið í umslaginu heldur aðeins undirskriftin sem komin var á leiðarenda. Elísabet er um það bil hálfnuð með að safna þeim 1.500 undirskriftum sem þarf til að geta gefið kost á sér í embætti forseta Íslands.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka