„Atvinnuveganefnd er enn að fjalla um frumvarpið, en ég vonast til að það komi til 2. umræðu í þinginu fljótlega. Það hefur verið góður gangur á vinnunni og samstaða er um að ljúka þessu.“
Þetta segir Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður í Morgunblaðinu í dag um stöðu frumvarps Ragnheiðar E. Árnadóttur iðnaðarráðherra um breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í frumvarpinu er m.a. að finna ákvæði um að einstaklingar geti starfrækt heimagistingu í 90 daga á ári hafi þeir skráð sig á vefsvæði sýslumanns á viðkomandi stað eða á tiltekinni sameiginlegri vefsíðu.
Þorsteinn staðfestir að meðal þess sem eftir væri að útkljá í vinnu nefndarinnar væri tæknileg útfærsla á hugmyndum sem fram hefðu komið um undanþágu heimagistingar frá greiðslu virðisaukaskatts. Skiptar skoðanir eru um málið meðal sérfræðinga og hafi fjármála- og efnahagsráðuneytið og embætti ríkisskattstjóra lagt fram ólíkar hugmyndir um það.