„Ég hef ekki skýringar á því í sjálfu sér hvers vegna hlutfallslega mörg félög hafa verið stofnuð fyrir Íslendinga. En það sem við manni blasir er að íslensku bankarnir voru á sínum tíma mjög framtakssamir í sinni útrás og þar með talið í ráðgjöf um að stofna félög af þessu tagi,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttir, þingmanni Pírata. Spurði hún hvort ráðherrann hefði skýringu á því hversu margir Íslendingar hlutfallslega hefðu ákveðið að stofna reikninga í skattaskjólum.
Spurðu Birgitta um stefnu Bjarna gagnvart skattaskjólum og hvort Íslandi myndi mögulega setja einhvers konar fordæmi eða sýna sérstöðu með því að banna slíka gjörninga. Tilefni fyrirspurnarinnar var opnun gagnagrunns í gær með upplýsingum úr Panama-skjölunum svonefndum. Bjarni sagðist telja að mikið gagn hafi verið gert með því og að það hefði mátt gerast fyrr. Sameinginlegir hagsmunir væru af því að gögnin kæmust til þar til bærra yfirvalda. Íslendingar hefðu verið framarlega í baráttunni gegn skattaskjólum.
„Háttvirtur þingmaður spyr þá í framhaldinu: Eigum við ekki bara að banna slíka löggerninga? Hérna komum við einmitt að kjarna málsins. Það er bannað að svíkja undan skatti. Það er bannað að leyna eignarhaldi sínu. Peningaþvætti er bannað. Allt þetta er bannað að íslenskum lögum. Af spurningu háttvirts þingmanns er hægt að ráða að verið sé að velta því upp hvort við eigum ekki að banna starfsemi á þessum svæðum yfir höfuð. Ég tel að það mundi lítill árangur nást ef Íslendingar ætluðu einir að stíga það skref án samstarfs við önnur ríki og að umræðan um viðskiptaþvinganir hljóti að snúa að þeim ríkjum sem neita að taka þátt í upplýsingaskiptasamningum,“ sagði Bjarni ennfremur.