Ríkisskattstjóri harðorður um „aflandsbælin“

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson, vararíkisskattstjóri, skrifa harðorða leiðara í nýjasta hefti Tíundar, fréttablað embættisins, sem kom út í dag. Segir þar að eftir að Panama-skjölin hafi komið fram sé „kerfi blekkinganna“ óðum að hrynja „ sem aumasta spilaborg.“

Eigur sveipaðar huliðshjúpi með flóknum blekkingum

Í leiðaranum er rifjað upp að um síðustu aldarmót hafi skattayfirvöld orðið þess áskynja að framteljendum sem ættu eignir á lágskattasvæðum færi fjölgandi. Komið hafi fram meðal annars við húsleitir að framtalsskilum um slíkt væri ábótavant. Hluti fólks hafi uppfyllt skyldur sínar en „flestir sáu þó enga ástæðu til að geta um þær eignir sínar sem komið hafði verið fyrir með framangreindum hætti.“

Þá beina þeir orðum sínum að fjárfestingum Íslendinga erlendis á tímum góðærisins. Segir í leiðaranum að umfang viðskiptanna erlendis hafi ekki skýrt „hvers vegna ótrúlega margir kusu að haga málum sínum með þeim hætti að gera enga grein fyrir þessum tekjum sínum og eignum á skattframtölum.“ Segja þeir áleitna spurningu hvers vegna fjármagnseigendur hafi í stórum stíl sveipað eigur sínar „huliðshjúpi með flóknum blekkingum.“

Útrásin byggð á skattaundanskotum?

Spyrja þeir sig hvort að „útrásin margfræga“ hafi þurft þessa leynd og hvort hún hafi samhliða viðskiptagjörningnum falist í að koma fjármagni undan skattlagningu.

Segir í leiðaranum að ástæða sé til að nýta þann byr sem nú sé um aflandsmál til að skera upp herör gegn því að notkun félaga af þessu tagi verði látin viðgangast. „Sóknarfærin eru nú óvenju sterk gegn þessu athæfi sem varla er unnt að kalla annað en ósóma,“ segir í leiðaranum.

„Kerfi blekkinganna er óðum að hrynja

Haldið er áfram og aflandskerfið sagt vera að hruni komið. „Kerfi blekkinganna er óðum að hrynja sem aumasta spilaborg.“ Segja þeir tilraunir yfirvalda með viðræðum, ályktunum og upplýsingaskiptasamningum sem aflandsríki voru nauðbeygð til að skrifa undir, hafi skilað vissum árangri, en ekki nægjanlega miklum. „Hulunni var ekki svipt frá fyrr en innviðir aflandsbælanna brustu og sýndargerningarnir, leyndin og blekkingarnar urðu heimsbyggðinni ljós.“

Þá segja þeir að Íslendingar hafi ekki aðeins verið bestir og mestir í viðskiptum, heldur einnig í „því alþjóðarugli sem aflandsheimurinn hefur að geyma.“

Segir jafnframt að það sé að koma skýrar og skýrar í ljós að íslenskir athafnarmenn hafi ekki dregið af sér við að fela fjármuni og eignarhald fyrir íslenskum yfirvöldum. Þeir hafi blekkt skattayfirvöld, samkeppnisyfirvöld og fjármálayfirvöld með liðsinni fjármálafyrirtækja eða sérfræðinga í hlutaðeigandi löggjöf.

Starfsmönnum skattayfirvalda hótað

Þegar yfirvöld kröfðust óþægilegra upplýsinga segja þeir að gripið hafi verið til gamalkunnugra aðferða eins og að tefja, fara undan í flæmingi og jafnvel gera yfirvöld tortryggileg. Þegar öll sund virtust lokuð var farið í að „hóta starfsmönnum skattayfirvalda.“

Ljúka þeir leiðaranum á að segja að upp komist svik um síðir og með afhjúpun Panama-skjalanna hafi hulunni verið svipt af felustaðnum og „þeir sem töldu sig eiga falinn fjársjóð í jörðu að hætti sjóræningja geta tæplega vænst þess lengur að sitja einir að góssinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert