Skiluðu ekki CFC-skýrslum fyrir Wintris

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og eiginkona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, skiluðu ekki svokölluðum CFC-skýrslum vegna aflandsfélagsins Wintris sem er skráð á Bresku Jómfrúareyjunum. Þetta kemur fram í færslu á heimasíðu Sigmundar þar sem hann upplýsti um eignir og skattgreiðslur þeirra hjóna.

Anna Sigurlaug er skráður eigandi félagsins samkvæmt upplýsingum sem birtust í Panama-skjölunum, en Sigmundur var áður helmingshluthafi. Hún hefur þó sagt að það hafi verið byggt á misskilningi og verið leiðrétt þegar það varð ljóst.

Horft í gegnum félagið

Sigmundur segir í færslunni að við framtalsgerð hafi verið „horft í gegnum félagið eins og það hafi aldrei verið til og eignir þess skráðar sem bein eign Önnu frá því ári áður en svo kallaðar CFC-reglur tóku gildi.“

Segir hann að með þessari leið hafi þau þurft að greiða hærri skatta hér á landi en ef félagið hefði verið verið flokkað sem CFC-félag, eða sem nemur um 300 milljónum. „Sú varfærna leið að greiða skatta af öllum eignum, hverri fyrir sig, í stað þess að nýta félagið og líta á það sem fyrirtæki í atvinnurekstri (og skila CFC-framtali) hefur skilað sér í hærri skattgreiðslum til ríkisins en ef stuðst hefði verið við atvinnurekstrar-/CFC-leiðina. Sú leið myndi auk þess þýða að komast mætti hjá skattgreiðslum næstu árin vegna uppsafnaðs taps,“ segir í greininni.

Panamaskjölunum var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca.
Panamaskjölunum var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca. AFP

Í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði sagði Sigmundur að CFC-löggjöfin nái aðeins yfir rekstrarfélög, en að Wintris hafi verið eignarhaldsfélag. Sú skýring passar ekki við texta laga um CFC-félög, skýringar á heimasíðu Ríkisskattstjóra eða skriflegt svar sem mbl.is fékk í síðasta mánuði frá Ríkisskattstjóra um undanþágur fram­tals- og skatta­skyldu CFC-fé­laga. Fjallað var nánar í grein mbl.is í apríl um hvað felst í þeim lögum og svar ríkisskattstjóra.

Engar upplýsingar um fjölda CFC-félaga

Í reglum um CFC-félög kemur fram að slík félög þurfi að fá íslenska kennitölu til að skila inn svokölluðum CFC-skýrslum sem eiga að fylgja með framtölum eigenda slíkra félaga.  Á heimasíðu Ríkisskattstjóra eru þessar framtalsleiðbeiningar um CFC-félög birtar:

„Sum CFC félög hafa fengið úthlutað kennitölu vegna bankaviðskipta á Íslandi. Eigi félag ekki íslenska kennitölu þarf að sækja um hana til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra (RSK 17.90). Án íslenskrar kennitölu er ekki hægt að skila tilskildum gögnum til ríkisskattstjóra.“

mbl.is hefur í nokkrar vikur óskað eftir því að fá upplýsingar um fjölda félaga sem hafi skilað CFC-skýrslum til Ríkisskattstjóra. Fyrr í þessari viku kom svar um að þau gögn væru ekki tölvutekin og því fást ekki nánari upplýsingar um fjöldann.

Þarf að skila CFC-skýrslum?

Í frétt Kjarnans í dag er vitnað í Skúla Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóra, þar sem hann segir að CFC-skýrslurnar séu fyrst og fremst verkfæri til að leiða fram skattstofna en það breyti engu um yfirferð skattframtala eða skattskyldu hvort þau séu fyllt út eða skattstofnar leiddir fram með öðrum hætti. Er jafnframt haft eftir honum að verið sé að vinna í að gera útfyllingu CFC-skýrslnanna rafræna og verði hún í framhaldinu „ófrávíkjanleg.“ Það er í samræmi við upplýsingar sem mbl.is fékk frá Ríkisskattstjóra í síðasta mánuði um að embættið gæti notast við upplýsingar um CFC-félög sem skráðar eru undir aðra tekjuliði og þá væri CFC-skýrslan óþörf. Aftur á móti er í framtalsleiðbeiningum á vef Ríkisskattstjóra skýrt tekið fram að skila eigi skýrslum á hverju ári eigi aðili CFC félag. „Eigandi CFC félags þarf að sjá til þess að skýrslu fyrir félagið sé árlega skilað til ríkisskattstjóra (RSK 4.24).“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert