Hallfríður Nanna Franklínsdóttir, elsti Siglfirðingurinn, er 100 ára í dag, fædd 12. maí 1916 að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu.
Foreldrar hennar voru Franklín Þórðarson frá Stóra-Fjarðarhorni í Strandasýslu og Andrea Jónsdóttir frá Miðhúsum í Kollafirði. Þau eignuðust 13 börn og af þeim hafa 9 náð 90 ára aldri. Móðir þeirra, Andrea, sem bjó síðustu árin á Siglufirði og lést þar 1979, varð 97 ára. Tvær af systrum Nönnu eru enn á lífi, Margrét, sem er 94 ára, og Guðborg, nýlega orðin 92 ára. Þær búa einnig á Siglufirði.
Hún er alltaf sjálfri sér lík, hún Nanna, tekur sjálfa sig ekki of hátíðlega, kemur til dyranna eins og hún er klædd, er skörp í orðaskiptum, hnyttin, skýr í huga, heldur sínu striki og er bara hún sjálf. „Fá orð í fullri meiningu,“ er lífsmottóið. Síðastliðin 15 ár hefur hún búið á Dvalarheimili aldraðra á Siglufirði, Skálarhlíð, og unað hag sínum vel.
Hún kveðst ekki muna eftir öðru en að þau systkinin hafi verið góð hvert við annað, þótt þau hafi kannski rifist endrum og sinnum, eins og gengur.
Skólagangan varð ekki löng, einungis þrír mánuðir í senn í tvö ár. Farskóli.
Á jólum var notað heimasmíðað jólatré, skreytt með berjalyngi. Gjafirnar nýir sokkar eða nýir skór eða eitthvað slíkt, en reynt að hafa eitthvað betra til matar. Og einn sið frá þeim árstíma tók hún með sér út í lífið þegar hún flutti að heiman, en það var að hafa kveikt eitt ljós á jóla- og nýársnótt.
Einnig minnist hún þess, að faðir hennar hafi sagt við hana litla um sumar: „Það er óhætt fyrir þig að fara inn og segja fólkinu að baka lummur með kaffinu, það á að slá bæinn úr grasi.“ Þá átti að fara að slá í kringum bæinn og var því fagnað með téðum hætti.
Ung lærði hún að spila á pínulitla harmonikku sem til var á heimilinu, en þegar hún er spurð um það hvort hún hafi getað spilað margt, svarar hún: „Maður var að reyna þetta.“
Heimilinu í Litla-Fjarðarhorni hefur verið svo lýst að þar hafi ríkt glaðværð og bjartsýni og frábær gestrisni.
Nanna kom til Siglufjarðar haustið 1944, flutti úr Litla-Fjarðarhorni með örstuttri viðkomu í Reykjavík. Andrea, móðir hennar, kom með henni, en þá bjuggu þrjár systra Nönnu á Siglufirði.
Nanna kynntist litlu síðar Baldvini Guðjónssyni, sjómanni og verkamanni, ættuðum úr Svarfaðardal, hann var fæddur 1. desember 1897, og þau gengu í hjónaband 9. júní 1946. Hann lést 12. nóvember 1975, 77 ára að aldri. Þau voru barnlaus, en Baldvin átti fyrir eina dóttur.
Nanna hafði eignast prjónavél, þegar hún bjó í foreldrahúsum og seldi varning þar í kring, aðallega peysur og nærföt, en fljótlega eftir að þau hjón opna verslunina á Siglufirði kemur ungur drengur til hennar og biður hana um að gera fyrir sig húfu eftir kúnstarinnar reglum. Sem hún og gerir, eftir nokkra umhugsun. Það var upphafið að Franklínshúfunum svokölluðu, sem áttu eftir að fara um land allt og víða um heim á næstu árum. „Já, ég seldi mikið,“ segir Nanna, þegar hún er spurð út í málið. „Ég man að ég sendi einu sinni 45 í einu til Ísafjarðar.“
Stærstu breytinguna á Siglufirði segir hún vera þá, að hann hafi stækkað svo mikið frá því hún sá hann fyrst, þanist út í allar áttir.
Nanna er mikil félagsvera, en hefði ekkert á móti því að hlaupa yfir þessa viku. Seinni partinn á morgun, nánar tiltekið kl. 16:30, á nefnilega að halda upp á stórafmælið í matsal dvalarheimilisins. Hún kveðst vera lítið fyrir slíkt.
En hvernig er heilsan?
„Jú, hún hefur alltaf verið góð,“ svarar Nanna. Ég fór reyndar að eiga erfitt með tal fyrir um þremur árum og mér finnst það leiðinlegt, því ég þarf svo mikið að tala. Gárungarnir segja að ég sé að verða búinn með kvótann, það sé ástæðan. Ég hef aldrei borðað hollustufæði eða verið í leikfimi eða neinu slíku, hef alltaf drukkið mjólk og borðað súrt og saltað og reykt og mikið af því, þennan kjarngóða mat sem þjóðin ólst upp við í gegnum aldirnar. Og svo drakk maður mysuna og slátursýruna út í eitt.
Ég datt frammi á gangi um daginn en það brotnaði ekkert eða brákaðist. Ég skreið inn til mín og sagði: Ég skal, ég skal, ég skal komast upp í rúmið. Og ég komst. Og fékk mér göngutúr eftir það. Það er orðin vika síðan. Ég finn aldrei til, hef verið heilsuhraust í gegnum ævina. Alltaf. Ég er nú hrædd um það.“
Franklín og Andrea voru gefin saman í hjónaband í Fellskirkju 23. maí 1903, hann 23 ára, hún 21 árs. Þá voru íbúar Strandasýslu um 1.800, nú eru þeir um 740. Þau hófu búskap í Þrúðardal vorið 1904 en fluttu ári síðar yfir Kollafjörð að Litla-Fjarðarhorni.
Þau eignuðust 13 börn sem eru: Þórður, f. 1903, d. 1991, Sigurður, f. 1903, d. 1983, Hermína, f. 1906, d. 2000, Eggþór, f. 1908, d. 1994, Anna Margrét, f. 1910, d. 2015, Guðbjörg Magnea, f. 1912, d. 2005, Guðmundur Helgi, f. 1915, d. 2005, Hallfríður Nanna, f. 1916, Benedikt Kristinn, f. 1918, d. 2010, Jón Líndal, f. 1919, d. 1999, Margrét, f. 1922 og Guðborg, f. 1924.