Ríkisskattstjóri hefur sent ítarlegar tillögur til fjármálaráðuneytisins um lagabreytingar vegna aflandsfélaga og skattaundanskota. Hann á von á því að lagafrumvarp þess efnis sé væntanlegt fljótlega en það er í vinnslu hjá fjármálaráðuneytinu.
„Það er einnig okkar skoðun að það þurfi að styrkja eftirlitið, meðal annars með skýrari lagaákvæðum, en það er alltaf álitamál hvað á að hafa stóran hluta af mannafla í eftirliti,“ segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
„Það sem skiptir mestu máli í þessu samhengi er almennt meiri skilningur í heiminum öllum á því að aflandsheimurinn sé mjög skaðlegur.“
Leiðari Skúla Eggerts og Ingvars J. Rögnvaldssonar, vararíkissaksóknara, í fréttablaðinu Tíund, hefur vakið athygli. Þar fara þeir hörðum orðum um aflandsfélög og notkun skattaskjóla.
Frétt mbl.is: Harðorður um „aflandsbælin“
Skúli bendir í samtali við mbl.is á umræðuna um aflandsfélög sem hafi komið reglulega upp og verið sérstaklega hávær frá árinu 2008 og eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis var sett fram. „Þessi umræða hefur leitt fram hversu skaðlegt það er samfélögum að hluti af borgurum komi sér hjá því að greiða lögbundna skatta og skyldur. Þeir sem gera það eru að leggja skyldurnar á samborgara sína. Þú vilt ekki borga reikninga annarra,“ segir Skúli.
Skúli tekur fram að mikill meirihluti þjóðarinnar standi rétt í skilum með sín skattframtöl en minnihluti reyni að koma sér undan greiðslu skatta með ýmsum hætti. „Svört atvinnustarfsemi er hluti af því og við höfum tekið á henni af fullum þunga. Drjúgur hluti af aflandsfélögunum er frá liðinni tíð en þau eru engu að síður enn til staðar. Með samstilltu átakti, þar með talið atvinnulífsins sem við höfum unnið með, er það mín trú að það takist að stemma stigu við undanskotum.“
Í Tíund segja Skúli og Ingvar það greinilegt að íslenskir athafnamenn hafi falið fjármuni og eignarhald í aflandsfélögum. Spurður hversu miklum tekjum ríkið hafi orðið af í þessu samhengi segist hann ekki hafa forsendur til að meta það. „Það liggur fyrir að á árunum 2003 til 2004 var þetta talið umtalsvert. Þá vantaði 11% af tekjum ríkis og sveitarfélaga. Við höldum að það sé heldur minna núna en þá var aflandsvæðingin mjög ákveðin,“ segir Skúli, sem telur að undanskot séu í kringum 80 milljarðar sem vanti í tekjur ríkisins og sveitarfélaga á ári hverju. Þar á hann við undanskot almennt talið, þar á meðal svarta atvinnustarfsemi og aflandsfélög.
„Það skiptir miklu máli að það sé reynt að lágmarka þetta eins og hægt er. Fjármálaráðuneytið og ráðherra hafa verið mjög ákveðin í því og styðja okkur í að stemma stigu við undanskotum.“