Hafnarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hefur samþykkt að Lúðvík Geirsson, fyrrverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, verði ráðinn hafnarstjóri bæjarins.
Þetta kemur fram í fundargerð hafnarstjórnar, sem kom saman til fundar í dag.
Þar segir að valnefnd, sem hafi verið skipuð af hafnarstjórn vegna ráðningar hafnarstjóra þann 1. febrúar 2016, hafi talið Lúðvík best uppfylla á hlutlægum grundvelli þá mikilvægustu þætti í kröfum sem gerðar voru til umsækjenda.
„Að mati valnefndarinnar leiðir reynsla, þekking og menntun sem og leiðtoga- og samstarfshæfni Lúðvíks til þess að hann er talinn vera hæfastur umsækjenda í starfið. Önnur gögn s.s. persónuleikapróf og umsagnir styrktu það mat enn frekar.
Með hliðsjón af framangreindu er það tillaga valnefndarinnar að Lúðvík Geirssyni verði boðið starf hafnarstjóra,“ segir í fundargerðinni
„Hafnarstjórn samþykkir að Lúðvík Geirsson verði ráðinn hafnarstjóri Hafnarfjarðar.
Hafnarstjórn samþykkir að fela formanni hafnarstjórnar ásamt bæjarstjóra að ganga frá ráðningarsamningi við hafnarstjóra.
Jafnframt samþykkir hafnarstjórn að hafnarstjóri Lúðvík Geirsson hafi fullt prókúruumboð fyrir Hafnarfjarðarhöfn,“ segir ennfremur.