Rúmur helmingur á móti inngöngu

AFP

Meiri­hluti aðspurðra, sem tóku af­stöðu í nýrri könn­un MMR, er á móti því að Ísland gangi í Evr­ópu­sam­bandið. Yfir helm­ing­ur svar­enda, eða 51,4%, sagðist and­víg­ur eða mjög and­víg­ur því að Ísland gangi í Evr­ópu­sam­bandið. Rétt rúm­ur fjórðung­ur, eða 27,1% svar­enda, sagðist hlynnt­ur eða mjög hlynnt­ur því að Ísland gangi í Evr­ópu­sam­bandið.

Í til­kynn­ingu MMR seg­ir að niður­stöðurn­ar bendi til þess að litl­ar breyt­ing­ar hafi verið á af­stöðu al­menn­ings gagn­vart inn­göngu Íslands í ESB und­an­far­in tvö ár. Sé hins­veg­ar litið til sam­an­b­urðar al­veg til árs­ins 2012 hef­ur and­víg­um fækkað um rúm­lega 10 pró­sentu­stig síðan seinni­hluta árs­ins 2012 þegar milli 60 og 65% Íslend­inga kváðust and­víg inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið. Á sama tíma­bili hef­ur hlynnt­um fjölgað um allt að 10 pró­sentu­stig.

Þegar afstaða al­menn­ings gagn­vart inn­göngu Íslands í ESB er skoðuð eft­ir sam­fé­lags­hóp­um kem­ur í ljós að fólk sem bú­sett er á höfuðborg­ar­svæðinu er mun hlynnt­ara inn­göngu Íslands í ESB held­ur en fólk sem býr á lands­byggðinni. Eldri ald­urs­hóp­ar og kon­ur eru einnig lík­legri til að vera and­víg inn­göngu í ESB held­ur en karl­ar og þau sem yngri eru. Þau sem búa á tekju­hærri heim­il­um virðast einnig vera lík­legri til að vera hlynnt inn­göngu Íslands í ESB. 
Lang­flest þeirra sem styðja rík­is­stjórn­ina eru and­víg inn­göngu Íslands í ESB, en meðal þeirra sem styðja ekki rík­is­stjórn­ina eru ívið fleiri sem eru hlynnt inn­göngu Íslands í ESB.

Þá er stuðnings­fólk Fram­sókn­ar og Sjálf­stæðis­flokks mun lík­legra til að vera and­vígt inn­göngu Íslands í ESB, en flest­ir stuðnings­manna Sam­fylk­ing­ar­inn­ar eru hlynnt­ir inn­göngu í ESB. Meðal stuðnings­manna Pírata er meiri­hluti hlynnt­ur inn­göngu Íslands í ESB, en jafn­ari dreif­ing er á af­stöðu stuðnings­manna Vinstri grænna og Bjartr­ar framtíðar.

Könn­un­in var fram­kvæmd dag­ana 6. til 9. maí og svöruðu 947 ein­stak­ling­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka