„Þetta er allt frá því að vera mjög gott niður í alveg ömurlegt. Sumir búa við fín skilyrði en aðrir þurfa að gera sér að góðu að gista í gámum og jafnvel þvottahúsum. Það er auðvitað ekki boðlegt. Svo virðist sem gullgrafaraæði sé runnið á ferðaþjónustuna og sjálfsagt þykir að fara frjálslega með aðbúnað, launamál og jafnvel stinga undan skatti.“
Þetta segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík en Norðlendingar hafa ekki farið varhluta af auknum umsvifum í ferðaþjónustu frekar en aðrir landsmenn. Að sögn Aðalsteins er allur gangur á aðbúnaði erlends vinnuafls í þeim geira.
Hann leggur áherslu á að þetta eigi alls ekki við um alla. „Það er mikill minnihluti sem hegðar sér svona en það er nóg til þess að koma óorði á atvinnugreinina og mögulega eyðileggja hana.“
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, hefur fylgst grannt með þessari þróun og staðfestir að samtökin vakti málið af auknum þunga. ASÍ hefur til dæmis hleypt af stokkunum verkefni sem beint er gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi, með sérstakri áherslu á að verja réttindi útlendinga sem hér starfa og ungs fólks. Yfirskrift verkefnisins er „Einn réttur – ekkert svindl!“
Þetta á ekki síður við í byggingariðnaði. „Undirboð af þessu tagi grafa undan kerfinu sem við búum við á vinnumarkaði hér á landi og geta haft mjög slæm áhrif á uppbyggingu í greininni sjálfri til lengri tíma litið. Það segir sig til dæmis sjálft að þetta getur bitnað á nýliðun og menntunartækifærum í greininni og þannig veikjum við stoðirnar undir íslenskt atvinnulíf til framtíðar,“ segir Halldór.
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.