Snekkjan sem verið hefur á Pollinum á Akureyri að undanförnu liggur nú við akkeri um 400 metra frá landi, austan við Hörpu, fyrir neðan Sæbrautina. Hægt er að standa á göngustígnum við Sæbrautina eða aka götuna og virða hana fyrir sér.
Samkvæmt upplýsingum frá hafnsöguvakt Faxaflóahafna kom snekkjan í morgun og verður við akkeri í nokkra daga.
Skapti Hallgrímsson, blaðamaður mbl.is og Morgunblaðsins á Akureyri, fjallaði nýlega um snekkjuna í pistli sínum um bæjarlífið á Akureyri. Þar sagði hann að snekkjan væri líkari kafbát en hefðbundinni snekkju. Er hún sögð föl fyrir andvirði 39 milljarða króna.
„Heldur ólíklegt að eigandinn hafi látið sigla henni inn Eyjafjörðinn til að sýna mögulegum kaupanda, en engar upplýsingar hafa fengist um tilgang heimsóknarinnar,“ skrifaði Skapti.