Gera ráð fyrir að allir svindli

Páll Magnússon, stjórnandi Sprengisands.
Páll Magnússon, stjórnandi Sprengisands.

Íslendingar gera almennt ráð fyrir að verið sé að svindla  þangað til annað kemur í ljós. Þetta er afleiðing af hruninu og þeim skorti sem er á trausti hér á landi í kjölfarið. Ekkert hefur áunnist á síðustu 8 árum í að endurvinna traustið, en það er mun alvarlegra en allir þeir fjármunir sem töpuðust með hruni fjármálakerfisins. Þetta sagði Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri og stjórnandi þáttarins Sprengisandur á Bylgjunni í dag.

Páll sagði í pistli sínum í upphafi þáttarins að þegar eitthvað færi úrskeiðis hér á landi yrði allt vitlaust. Það væri eins og að hrúður af djúpu sári væri rifinn upp og það færi að fossblæða. Sagði hann allt traust farið og alla trúa því versta upp á alla aðra.

Þetta væri öfugt við það sem gert væri í siðuðum löndum þar sem stofnanir landanna tækju til við að laga það sem færi úrskeiðis. Hér á landi væri ástæða þessa skorts á trausti aftur á móti sú að stofnanir landsins, bæði opinberar sem og þær í einkageiranum, hefðu brugðist. Nefndi hann þrjú dæmi sem Páll sagði vera af handahófi.

Fyrst bæri að nefna niðurfellingu vörugjalda á fatnað og skó um áramótin. Ríkið hafi sagt að þetta ætti að lækka verð á vörunum til neytenda. Í síðustu viku hafi komið í ljós að verð lækkaði þó aðeins um hluta þess sem vörugjaldalækkunin átti að skila, eða um 4%. Sagði Páll verslunina hafa tekið afganginn.

Þá nefndi hann að bankarnir hefðu í nokkrum tilfellum valið vini sína til að kaupa hlutabréf í lokuðu ferli áður en slík bréf væru sett á markað eða seld í opnu ferli. Nefndi hann sérstaklega sölu Borgunar og tengsl fjármálaráðherra við málið. Þá sæti bankastjóri áfram og ekkert virtist breytast og lífeyrissjóðir, sem væru stærstu hluthafar fyrirtækja, gerðu lítið.

Að lokum nefndi Páll mál Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, í tengslum við Orku Energy. Sagði hann að þrátt fyrir óeðlileg hagsmunatengsl sitji Illugi sem fastast og að umboðsmaður Alþingis hafi ekki gert neitt. Sagði Páll að kosningarnar í haust myndu að mestu snúast um þetta, þ.e. traust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert