Kynfrjáls í öruggu umhverfi

Guðmunda segir grunnskólakerfið allt af vilja gert, en margir skólar …
Guðmunda segir grunnskólakerfið allt af vilja gert, en margir skólar séu ekki í stakk búnir til að styðja við bak ungs fólks sem finnur sig ekki innan marka hefðbundinna kynjaskilgreininga. Jakob Fannar Sigurðsson

Dagana 3.-10. júlí næstkomandi verða haldnar Kynfrjálsar sumarbúðir að Reykjum í Hrútafirði. Sumarbúðirnar eru ætlaðar ungu fólki á aldrinum 15-30 ára, sem skilgreina sig sem trans, intersex, eða kynsegin, eða finna sig einfaldlega ekki innan hefðbundinna kynjaramma.

Meðal þátttakenda verða ungmenni frá Finnlandi, Írlandi, Norður-Írlandi og Slóveníu.

Dagskrá sumarbúðanna er enn í mótun en stefnt er að því að bjóða upp á ýmsa fræðslu, t.d. um kyn og kynvitund, og vinnustofur í líkamsvirðingu, svo dæmi séu tekin.

„Dagskráin er ekki endanleg af því að við viljum að leiðbeinendur og þátttakendur skapi hana saman,“ segir Guðmunda Smári Veigarsdóttir, eitt skipuleggjenda sumarbúðanna, en að þeim stendur hópur fólks úr ýmsum samtökum, s.s. ungliðahreyfingu Samtakanna '78, Trans Ísland og Intersex Ísland.

Guðmunda hefur sjálft ákveðið að skilgreina hvorki kyn sitt né kynhneigð, og notar hvorukynsfornafnið hén þegar hén talar um sjálft sig. „Ég hafna bara kynjakerfinu, en það er bara ég og ég passa það til dæmis með transstráka og transstelpur að það á ekki að rugla þau hvernig ég skilgreini mig. Þó ég sé stundum að hræra í hausnum á fólki; hvað kyn er og hver mörkin eru, þá á maður ekki að miskynja transeinstaklinga,“ segir Guðmunda.

Hén segir sumarbúðirnar hins vegar kjörið tækifæri fyrir þá sem eru að stíga fyrstu skrefin til að kynnast öðrum í sömu sporum og vera þeir sjálfir í öruggu umhverfi.

„Margir af þátttakendum sem eru að sækja um búa úti á landi og hafa ekki tækifæri á að vera í hinsegin menningunni í Reykjavík,“ segir Guðmunda. „Það er ungt fólk að koma til okkar sem hefur aldrei notað rétt nafn. Þau koma í sumarbúðirnar og eru að nota rétt nafn í fyrsta skipti, og það er ekkert mál; allir nota bara það nafn sem þú vilt nota.“

Verkefnið er styrkt af Erasmus+ en hópurinn sem skipuleggur sumarbúðirnar leitar einnig annarra styrktaraðila til að geta veitt öllum sem vilja tækifæri á að taka þátt. Þátttökugjaldið er 12.000 krónur, en ef áhugasamir sjá sér ekki fært að standa straum af þátttöku þá eru þeir hvattir til að setja sig í samband við skipuleggjendur í gegnum skráningarsíðuna, sem hafa svo samband í fullum trúnaði.

Guðmunda segist vonast til að þeir sem sækja sumarbúðirnar fari þaðan öruggari í eigin líkama og með viðbót við tengslanetið.

Hér er að finna skráningarsíðu Kynfrjálsra sumarbúða. Skráning stendur yfir til miðnættis.

Guðmunda Smári Veigarsdóttir.
Guðmunda Smári Veigarsdóttir. Ljósmynd/Mynd úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert