Veðrið leikur við höfuðborgarbúa og íbúa víða á Suður- og Vesturlandi þessa stundina. Að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, mun þó þykkna upp og hvessa síðdegis og fara að rigna allra syðst. Íbúar á þessum svæðum ættu því að nýta góða veðrið á meðan það varir.
Á norðurlandi er töluvert hvassviðri þessa stundina, en lægir með kvöldinu. „Það er svolítið hvasst á norðvestanverðu landinu, 10-15 metrar, en það dregur smám saman úr vindi þar með kvöldinu. Annars er slydda og rigning á norðaustanverðu landinu en það á að létta þar til seinni partinn,“ segir Þorsteinn.
Annars verður ágætis veður víðast hvar í dag. Hitinn fer upp í 12-13 stig sunnanlands en það er heldur svalara fyrir norðan.
Komandi vika lítur vel út að mati veðurfræðings. „Veðurspáin lítur vel út þegar líða fer á vikuna, þrátt fyrir smábakslag í kvöld. Það er lítil úrkoma í kortunum og ágætis vorveður framundan.“