Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir að niðurstaða skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um mat á nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar sé röng og að nothæfisstuðullinn hafi ekki verið reiknaður út í samræmi við verklag Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ICAO. Þetta kemur fram í fréttablaði FÍA.
Þar segir að öryggisnefndin hafi í september skrifað greinargerð varðandi fyrirhugaðar breytingar á Reykjavíkurflugvelli. Greinargerðin var send til innanríkisráðuneytisins, Samgöngustofu, Isavia og umhverfis- og samgöngunefndar. Fyrir lá áhættumatsskýrsla Isavia með vísan í umfangsmikla skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um mat á nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar samkvæmt viðmiði ICAO.
Eins og kemur fram í greininni hafa lengi verið uppi vangaveltur um að loka braut 06/24 eða „neyðarbrautinni“ svokölluðu.
„Þó svo að tillögur þess efnis hafi verið settar fram síðan 1990 og margir stjórnmálamenn undirritað viljayfirlýsingar, er ekki þar með sagt að sú aðgerð standist reglugerð,“ segir í grein Ingvars Tryggvasonar, flugstjóra og formanns öryggisnefndarinnar. Bendir hann á að Ísland er aðili að Alþjóðaflugmálastofnunninni (ICAO) með undirritun Chicago samningsins frá 1944. Viðaukar við samninginn hafa verið innleiddir í íslenska löggjöf og hefur viðauki 14 verið innleiddur með reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli. Í viðauka 14 ásamt fylgiskjölum 9157 og 9184 er útlistuð sú aðferðafræði sem beita skal við útreikning á nothæfistuðli flugvalla og 95% lámarks nothæfistuðull tilgreindur.
„Þessi aðferð nýtist við valkostagreiningu nýrra flugvalla og hugsanlegar breytingar á flugvöllum sem þegar hafa verið byggðir. Eftir ítarlega athugun komst ÖFÍA að þeirri niðurstöðu, að útreiknaður nothæfisstuðull Reykjavíkurflugvallar án brautar 06/24 í skýrslu Eflu væri rangur, þar sem leiðbeiningum ICAO var ekki fylgt að öllu leyti. Alvarlegasta villan í skýrslu Eflu er að ekki er reiknað með bremsuskilyrðum á flugbrautum.“
Á grundvelli upplýsingalaga fékk öryggisnefndin afhent tölvupóstssamskipti Eflu og Isavia og vitnar Ingvar í þau. „Í samskiptum milli starfsmanna Isavia og Eflu 30. október 2014 kemur eftirfarandi fullyrðing fram:
„Í þessari greiningu verður notast við 13kt hliðarvindhraða mörk á brautum 01, 13, 19 og 31, þá er lagt það mat að ekki þarf að taka tillit til bremsuskilyrða sem leiðir af sér íhaldssamari nothæfisstuðull.” Ekki kemur fram í skýrslu Eflu hvernig þetta mat fór fram. Hinsvegar má ráða af lestri skýrslunnar að höfundar virðast rangtúlka grein 3.1.3 í reglugerð nr. 464/2007 með þeim afleiðingum, að ekki var tekið tillit til bremsuskilyrða á flugbrautum,“ skrifar Ingvar.
„Það blasir því við að nothæfisstuðullinn er ekki reiknaður út í samræmi við verklag ICAO og niðurstaðan því röng. Hvernig þessi mistök gátu átt sér stað er ekki á verksviði ÖFÍA að greina, en það væri með öllu óforsvaranlegt að taka ákvörðun um lokun flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli byggða á gallaðri verkfræðiskýrslu.“
Kemur jafnframt fram að öryggisnefndin hafi komið á framfæri alvarlegum athugasemdum við framvindu þessa máls. „Það er grundvallaratriði að úrvinnsla er varðar flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvefengjanlegum hætti,“ skrifar Ingvar.
Hinn 22. mars kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp þann úrskurð að loka skyldi braut 06/24 á grundvelli samkomulags ríkis og borgar en innanríkisráðuneytið hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar.