„Þetta á ekki að geta gerst“

Veðurstofa Íslands.
Veðurstofa Íslands. mbl.is/Eggert

Tölvukerfi Veðurstofu Íslands er komið aftur í lag eftir alvarlega bilun sem átti sér stað í kælibúnaði  í dag. Vefur Veðurstofunnar og símkerfið eru einnig komin aftur í gagnið.

Að sögn Hafdísar Karlsdóttur, setts forstjóra Veðurstofunnar, tók um fjórar klukkustundir að ráða bóta á vandanum.

Keyra þurfti niður ofurtölvu dönsku veðurstofunnar og að hluta til tölvukerfi Veðurstofunnar eftir að skilaboð bárust um eittleytið um að eitthvað væri að kælibúnaðinum.

30 gráða hiti í tölvusalnum

„Það er því að þakka að vel fór hversu starfsfólk Veðurstofunnar brást hárrétt við. Okkar þjónustuaðilar hlupu líka strax til. Starfsmenn slökkviliðsins voru svo okkar hetjur,“ segir Hafdís.

Til þess að kæla ofurtölvuna niður dældu slökkviliðsmenn köldu lofti inn í tölvusalinn en hitinn þar inni var kominn í 30 gráður.

Frétt mbl.is: Slökkviliðið kallað á Veðurstofuna

Varaleið tengd á morgun

Hafdís segir að möguleikinn á bilun í kælibúnaðinum hafi verið fyrir hendi. „Þetta er það sem við vorum hræddust við. Við vorum tilbúin með varaleið, sem á eftir að tengja,“ segir hún og býst við því að það verði gert á morgun. „Þetta á ekki að geta gerst en það er oft þannig að ef eitthvað getur farið úrskeiðis þá gerir það það.“

Hún segir að þrátt fyrir óhappið hafi verið hægt að búa til veðurspár í allan dag. Einungis vefurinn og símkerfið hafi dottið út í eina til tvær klukkustundir. „Þetta varð ekkert alvarlegt ástand vegna þess hve fljótt var brugðist við,“ segir hún.

Vandamálið verður núna greint ítarlega og allt tekið fyrir lið fyrir lið. Danska veðurstofan hefur fylgst með framgangi mála í allan dag og í samræmi við vottað gæðakerfi mun hún fá skýrslu um það sem gerðist. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka