Nýr samningur skili 1,8 milljörðum árlega

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Golli

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að full innistæða sé fyrir þeirri verðstefnu sem fyrirtækið hafi í dag, en samkvæmt upplýsingum mbl.is má telja mjög ólíklegt að hækkun á raforkuverði í nýjum samningi Landsvirkjunar við Norðurál hafi verið undir 50%. Það þýðir að nýtt verð til Norðuráls verði um 26 til 30 Bandaríkjadalir á hverja megawattsstund, miðað við að aðrir áhrifaþættir séu óbreyttir, í stað um 17-19 dala, sem áætla má að gamli samningurinn hljóði upp á. Slík breyting skilar fyrirtækinu tæplega 1,8 milljörðum árlega í auknar tekjur.

Óvenjulega stuttur samningur

Á föstudaginn skrifuðu Landsvirkjun og Norðurál undir nýjan samning vegna raforkusölu til verksmiðju fyrirtækisins á Grundartanga. Núverandi samningur rennur út árið 2019, en endurnýjaði samningurinn var undirritaður til fjögurra ára í viðbót, eða til ársins 2023. Er því aðeins um að ræða fjögurra ára samning sem þykir heldur stutt í þessum geira hér á landi. Þá verður samningurinn tengdur markaðsverði raf­orku á Nord Pool-raf­orku­markaðnum í stað álverðs.

Í samtali við mbl.is segir Hörður að samningar sem séu tengdir við markaðsverð rafmagns séu oft til styttri tíma, en fyrri samningur var með álverðstengingu. Segir hann stefnu Landsvirkjunar síðustu ár hafa verið að stytta raforkusamninga og minnka álverðstengingu. Þannig hafi lánshæfisfyrirtæki ítrekað bent á að álverðstenging fyrirtækisins væri óeðlilega mikil. Segir hann samninginn núna því vera eðlilegan hluta af áhættustýringu Landsvirkjunar.

Álverðstenging úr 65% niður í 20%

Til samanburðar var álverðstenging á um 65% þeirrar raforku sem Landsvirkjun seldi árið 2009, ári áður en nýr samningur við Rio Tinto Alcan í Straumsvík var gerður, en verður árið 2019, eftir að nýr samningur Norðuráls tekur gildi, um 20% að sögn Harðar.

Bendir hann á að álverð sé sveiflukennt og oft ótengt raforkuvinnslu og því verði sem sé í gildi á raforkumarkaði. Þannig ráði oft sveiflur í Kína og verðbreytingar utan Evrópu meira um álverð en sá markaður sem Landsvirkjun sé horfi til. Hann tekur þó fram að Landsvirkjun hafi til langs tíma trú á áli og að eðlilegt sé að hafa einhverja slíka tengingu. „Með þessu er tengingin að verða ásættanleg,“ segir Hörður.

Á næstunni mun samningur Landsvirkjunar við Elkem á Grundartanga einnig renna út. Aðspurður hvort samningur Norðuráls verði þar notaður sem fyrirmynd segir Hörður að almennt leiti fyrirtæki eftir því að fá fast verð í sínum samningum. „Ég á von á því að það verði almenna línan,“ segir hann.

Landsvirkjun selur Norðuráli um 1,5 terawattsstundir á ári.
Landsvirkjun selur Norðuráli um 1,5 terawattsstundir á ári. Sigurður Bogi Sævarsson

Mjög ólíklegt að verðið sé mikið undir 30 dölum á megawattsstund

Fyrir ári síðan birti Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, greiningu á orkumarkaðinum hér á landi og kom þá fram að Norðurál greiddi lægsta orkuverðið af álverunum þremur, en meðalverð sem Landsvirkjun fékk fyrir alla orkusölu sína árið 2014 var um 26 dalir. Skekkjumörk eru í útreikningum hans, en leiða má að því líkur að verðið til Norðuráls þetta árið hafi verið um 17-19 dalir.

Þeir sérfræðingar á orkumarkaði sem mbl.is hefur rætt við segja mjög ólíklegt að Landsvirkjun hafi samið um miklu lægra verð en 30 dali á megawattsstund í þessum nýjustu samningum við Norðurál. Byggist það meðal annars á verðþróun á Evrópu- og Bandaríkjamarkaði og þeim samningi sem gerður var við Rio Tinto Alcan árið 2010. Sá samningur var bundinn við neysluvísitölu í Bandaríkjunum og í fyrrnefndri greiningu Ketils er verð Landsvirkjunar til fyrirtækisins yfir 30 dalir á megawattsstund. Enginn þeirra sem mbl.is ræddi við vildi koma fram undir nafni, meðal annars vegna smæðar markaðarins og hagsmunatengsla.

Raforkumarkaðurinn hefur breyst mikið

Þá hefur Landsvirkjun einnig lýst því yfir að heildsöluverð þeirra í dag sé um 43 dalir án dreifikostnaðar sem er um 6 dalir á megawattsstund, en í tölunum til stóriðjunnar í þessari grein er dreifikostnaðurinn innifalinn. Það þýðir í raun að núverandi samningur Norðuráls er rúmlega 70% lægri en uppsett verð Landsvirkjunar til nýrra viðskiptavina í dag. Eðlilegt er að stórir viðskiptavinir með stöðuga orkunotkun fái einhver afsláttarkjör, en spyrja má hvað teljist eðlilegur afsláttur í þessu samhengi.

Hörður segir einnig í samtali við mbl.is að raforkumarkaðurinn hér á landi hafi undanfarið breyst mikið og í stað þess að um sé að ræða sterkan kaupendamarkað séu markaðsaðstæður mun eðlilegri fyrir bæði kaupendur og seljendur í dag.

Hvað þýðir 50% hækkun á samningnum?

En hvað þýðir þá þessi nýi samningur í krónum talið? Tekið skal fram að þessir útreikningar byggjast ekki á endanlegum gögnum úr samningnum, enda hafa beinar tölur úr slíkum samningum hingað til ekki komist í hendur fjölmiðla, heldur er um að ræða verð sem ætla má að hafi verið samið um miðað við það sem að framan greinir og tímalengd samningsins.

Norðurál í Hvalfirði.
Norðurál í Hvalfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Landsvirkjun selur Norðuráli tæplega 1,5 terawattsstundir á ári eða 1,5 milljónir megawattsstunda. Ef fyrri samningurinn er upp á 18 dali á megawattsstundina og sá nýi með 50% hækkun er upp á 27 dali nemur hækkunin 9 dölum á megawattsstund. Það þýðir að verð sem Norðurál greiðir á ári hækkar úr 27 milljón dölum í 40,5 milljón dali. Það er hækkun upp á 13,5 milljón dali eða um rúmlega 1,75 milljarða íslenskra króna á ári. Hér er miðað við að hækkunin nemi 50% og fari upp í 27 dali, en það eru lægri mörkin sem sérfræðingar sem mbl.is ræddi við nefndu. Þá má geta þess að Landsvirkjun útvegar aðeins um þriðjung af orkuþörf Norðuráls, hinir seljendurnir eru ON og HS orka, en þeir samningar voru ekki lausir um þessar mundir. Norðurál er þriðji stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og kaupir um 10% af seldri orku fyrirtækisins.

Tengist ekki mögulegri lagningu sæstrengs

Spurður um tímalengdina og hvort samningsaðilar séu þar að kaupa sér tíma vegna hraðra breytinga á markaðsaðstæðum og möguleika á að sæstrengur verði lagður segir Hörður að tímalengdin ráðist ekki af möguleika á lagningu sæstrengs. „Við viljum áfram vera í samning við Norðurál,“ segir hann og bendir á að fyrirtækin hafi átt gott samstarf í um 20 ár. Það hafi aftur á móti verið erfitt að gera langtímasamning núna þegar fyrirtækin hafi ekki haft sömu sýn. „Í svona landslagi er erfitt að gera slíka samninga,“ segir hann og vísar þar til þess að bæði raforkuverð og álverð sé lágt um þessar mundir.

Segir hann þó ljóst að gamli samningurinn hafi verið barn síns tíma og ljóst að hann hafi verið mjög lágur. Nýi samningurinn feli í sér talsverða hækkun þó hann vilji ekki nefna ákveðna tölu í því samhengi.

Grunnur fyrir auknar arðgreiðslur og þjóðarsjóð

Nýir samningar við orkufyrirtækin þar sem samið er um hærra verð eru grunnurinn að auknum arðgreiðslum Landsvirkjunar á komandi árum, en á ársfundi fyrirtækisins í síðasta mánuði kom meðal annars fram að fyrirtækið hygðist skila 10-20 milljörðum í arð á ári á næstu 2-3 árum. Við sama tækifæri kynnti Bjarni Benediktsson stofnun þjóðarsjóðs sem ætti að fá arðgreiðslur úr orkugeiranum og á nokkurra ára skeiði safna myndarlegri upphæð.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, kynnti hugmyndir um þjóðarsjóð í síðasta mánuði. …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, kynnti hugmyndir um þjóðarsjóð í síðasta mánuði. Stærstur hluti framlaga í sjóðinn áttu að koma með arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert