Veiðigjöld ekki sanngjörn

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegsráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegsráðherra.

Sjávarútvegsráðherra telur ekki sanngjarnt að taka sérstakt gjald af sjávarútveginum umfram aðrar atvinnugreinar sem nýta auðlindir landsins með einhverjum hætti. Þau séu í raun aukaskattur á hluta landsbyggðarinnar. Best sé að nýta skattkerfið til að innheimta arð af auðlindum og setja allar atvinnugreinar undir sama hátt.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi velti Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, því upp hvort að opinber útboð á fiskveiðiheimildum væru skilvirkasta leiðin til að skila arði af auðlindinni til þjóðarinnar. Sá háttur væri þegar hafður á varðandi útblástursheimildir og úthlutun fjarskiptatíðna.

Hugmyndir væru uppi í Færeyjum um að taka upp þessa aðferð. Spurði hún Gunnar Braga Sveinsson, sjávarútvegsráðherra, hvort hann hefði kynnt sér þessar hugmyndir og hvort hann teldi það ekki réttlætismál að stærri hluti arðsins af fiskveiðiauðlindinni rynni í ríkissjóðs en nú er.

Reikni út afnotagjald á aðrar atvinnugreinar

Gunnar Bragi sagðist sjálfur hafa litið svo á að veiðigjaldið væri aukaskattur á ákveðna landshluta því það legðist þyngst á fyrirtæki á landsbyggðinni. Þá teldi hann aðferðina sem notuð væri til að reikna út veiðigjaldið of flókna.

„Ég velti fyrir mér af hverju tökum við út eina atvinnugrein sem er að nota auðlindir landsins? Hvers vegna reiknum við ekki út einhvers konar afnotagjald á aðrar atvinnugreinar líka sem eru að nýta auðlindir landsins hvort sem það er nú raforka eða þess vegna loftbylgjur, vatn, ferðaþjónustu þess vegna?“ sagði ráðherrann sem var ekki sammála því að of lítið rynni í ríkissjóð af auðlindagjaldi.

Sagðist hann telja skynsamlegt að setja allar atvinnugreinar undir sama hatt og best væri að nota skattkerfið til þess að ná í gjöld af auðlindunum. Hann hefði ekki náð að setja sig inn í hugmyndir Færeyinga en hann hefði þó heyrt að þær væru umdeildar innanlands.

„Mér finnst í sjálfu sér engin sanngirni í því að vera að taka sérstakt gjald af einni atvinnugrein,“ sagði Gunnar Bragi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert