Bill Gates, stofnandi tölvurisans Microsoft, mun fjárfesta í nýju fimm stjörnu hóteli sem senn rís við hlið tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.
Þetta herma áreiðanlegar heimildir Morgunblaðsins en samkvæmt umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag mun fjármögnun verkefnisins langt á veg komin. Bæði íslenskir og erlendir aðilar munu koma að henni.
Haraldur Flosi Tryggvason, lögmaður Carpenter & Company, fyrirtækisins sem reisir hótelið, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Carpenter & Company hefur komið að mörgum stórum hótelverkefnum í Norður-Ameríku, meðal annars í samstarfi við hótelkeðjurnar St. Regis, Four Seasons, Marriott, Hyatt og Starwood. Áætlað er að kostnaður við verkefnið muni verða í kringum 130 milljónir dollara, jafngildi um 16 milljarða íslenskra króna.