Segir KúKú Campers sýna ábyrgð

Fyrirtækið sérhæfir sig í leigu á húsbílum, en ferðamenn geta …
Fyrirtækið sérhæfir sig í leigu á húsbílum, en ferðamenn geta gist í bílnum hvar sem þeir stoppa. ljósmynd/KúKú Campers

„Við gerðum út einn húsbíl þegar við opnuðum heimasíðuna okkar og þessi gríntexti var skrifaður, en nú gerum við út 190 bifreiðar og þá auðvitað eykst okkar samfélagslega ábyrgð. Þá þurfum við auðvitað að endurskoða það hvort við þurfum að fara að laga þetta aðeins til,“ segir Steinarr Lár, einn eigenda KúKú Campers, en mikil umræða hefur skapast um markaðsefni fyrirtækisins undanfarið. Steinarr fundaði með fulltrúum Íslandsstofu og Samtökum ferðaþjónustunnar í gær.

Viðskiptavinir KúKú Campers ekki til vandræða

Fyrirtækið sérhæfir sig í leigu á húsbílum, en ferðamenn geta gist í bílnum hvar sem þeir stoppa. Á vefsíðu fyrirtækisins má m.a. finna upplýsingar um hin ýmsu kort af Íslandi sem fyrirtækið selur ferðamönnum. Þar er því m.a. haldið fram að hver sem er geti farið inn á lands hvers sem er og lifað af gæðum lands viðkomandi í sólarhring án þess að greiða fyrir. Einnig er hvatt til kynlífs hvar sem er í náttúrunni og að fólk veiti reiði sinni útrás með því að múna á þinghúsið.

„Það hafa allir hag af því að það sé gengið um Ísland af ábyrgð og þrátt fyrir að við sem KúKú Campers grínumst á netinu og í okkar kynningarefni þá er mikilvægt að það komi fram að við gefum hverjum og einum klukkutíma fund þar sem við skipuleggjum ferðina þeirra og komum þeim niður á jörðina með það hvað þeir mega gera og hvert þeir mega fara,“ segir Steinarr og bætir við að ekki hafi komið upp atvik þar sem viðskiptavinir fyrirtækisins eru til vandræða.

„Við eigendur fyrirtækisins spurðum okkur vissulega hvort það gæti verið að við værum að valda vanda og höfðum samband við lögregluna sem staðfesti við okkur að bæði í hraðaprófunum, þ.e. radarmælingum, og einnig í eiturlyfjaprófunum sem þeir gera þá hafa okkar viðskiptavinir komið mjög vel út. Þá hefur aldrei komið upp atvik um utanvegaakstur eða að keyrt hafi verið ofan í á svo okkar viðskiptavinir virðast vera mjög vel upplýstir.“

Umræða um KúKú Campers birtingarmynd rasisma

Steinarr segir umræðu undanfarnar vikur um KúKú Campers vera ákveðna birtingarmynd rasisma. „Ef fólk trúir því upp á einstaklinga að því þeir séu af erlendu bergi brotnir þá muni þeir haga sér með mjög ósæmilegum hætti og stunda kynlíf og stóðlífi alls staðar, þá er það komið niður á mjög lágt plan,“ segir hann. Þá bendir hann á að fyrirtækið sér með mjög strangar siða- og umgengnisreglur sem allir viðskiptavinir þeirra þurfi að lesa, og því standist það ekki að þeir gangi um náttúruna og hafi hægðir hvar sem því sýnist.

„Þó við séum með 190 bifreiðar og það hljómi eins og mikið þá eru 19.000 skráðir bílaleigubílar á landinu og þar af leiðandi erum við með 1% af þessum bílum, svo það er auðvelt að segja að við séum oddurinn á spjótinu. Við erum að þjónusta sex þúsund manns á ári og ef það er ein og hálf milljón sem kemur þá erum við með 0,3% af þeim ferðamönnum sem sækja landið. En þegar umræðan kemur upp um ferðamenn er eins og það séu bara okkar viðskiptavinir sem eru að skíta um allt. Þetta er í engu samhengi,“ segir hann.

Þá bætir hann við að ekki sé rétt að fyrirtækið hafi verið að leigja út veiðistangir og segja fólki að fara niður að Langá og veiða sér lax. „Við höfum aldrei leigt út veiðistangir en ef einhverjir hafa haft áhuga á veiðum þá erum við í nánu sambandi við Fishing Card sem veitir ferðamönnum aðgang að 36 ám svo okkar viðskiptavinir hafa þá veitt í þeim.“ 

Ferðaþjónustan komin að þolmörkum

Varðandi upplýsingar um að borða megi allt á landi hvers sem er segir Steinarr að verið sé að gera grín að 27. grein náttúruverndarlaga þar sem segir að tína megi ber, sveppi, fjallagrös, jurtir og fjörugróður í þjóðlendum, á eignarlöndum þurfi að leita leyfis eigenda, en mönnum sé þó heimilt að tína til neyslu á vettvangi.

„Engu að síður má segja að ferðamennskan sé komin að þolmörkum og við þurfum að vanda okkur meira en áður,“ segir Steinarr. Í því sambandi vísar hann til Inspired by Iceland myndbands Íslandsstofu þar sem fólk er úti um allt land og þar sé meðal annars nakið par að njóta ásta í náttúrulaug. „Nú erum við farin að taka á móti einni og hálfri milljón ferðamanna og þá þurfum við að fara að hugsa þetta upp á nýtt.“

Ekki hægt að banna fólki að nota húmorinn

Á fundinum með Íslandsstofu og Samtökum ferðaþjónustunnar í gær var tekin ákvörðun um myndun starfshóps hjá húsbílaleigueigendum og rekstraraðilum að sögn Steinarrs. Að sögn Ingu Hlínar Pálsdóttur, forstöðumanns ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, gekk fundurinn vel og gott samtal myndaðist um málin. „Við vorum að fara yfir það hvernig markaðssetningu á Íslandi er háttað og að við séum að halda sameiginlegum fókus í öllu okkar starfi,“ segir hún. „Við höfum sett fram ákveðnar grunnstoðir í markaðssetningunni og vorum aðeins að ræða það og regluverkið í kringum það. Það er það sem þarf að skoða núna og sú vinna er raunverulega í gangi eins og hjá Umhverfisstofnun.“

Inga Hlín segir að ekki hafi verið settar neinar línur, þar sem Íslandsstofa og Samtök ferðaþjónustunnar séu ekki eftirlitsaðilar, og ekki hafi verið um neitt ólöglegt að ræða. „Það er bara verið að reyna að nota húmorinn til að fá athyglina og það er ekki hægt að banna neinum að gera það, en við vorum bara að benda á að þetta er ekki alveg í samræmi við það sem er verið að leggja áherslu á í markaðssetningunni fyrir Ísland í heild sinni.“

Steinarr Lár er einn eigenda KúKú Campers.
Steinarr Lár er einn eigenda KúKú Campers. ljósmynd/KúKú Campers
Seljavallalaug
Seljavallalaug mbl.is/Lára Halla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert