Halda tryggð við kvalara sinn

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Júlíus

Fórnarlömb mansals líta oft ekki á sig sem fórnarlömb. Þau vita ekki einu sinni hvað mansal er, þekkja ekki sögu sína, muna lítið hvað gerðist áður fyrr og halda – oft á tíðum – ótrúlega tryggð við kvalara sinn. Þetta sagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á málþingi um mansal í Iðnó í morgun.

Hún sagði algengt einkenni að fórnarlömbin væru haldin Stokkhólmsheilkenninu. Það væri því miður staðreynd. Þá væri ekki hægt að spyrja fólk hvort það væri fórnarlamb mansals – enda vissi það ekki endilega hvað mansal er – heldur þyrfti að fá það til að segja söguna sína. Fórnarlömbin treystu heldur ekki yfirvöldum og hefðu raunverulega ástæðu til að gera það ekki. Það væri þeirra reynsla. Jafnframt hefðu þau oft slæma reynslu af samskiptum við yfirvöld sem gjarnan sakfellir þau fyrir brot sem þau framkvæma ekki af eigin vilja.

Innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið stóðu fyrir málþinginu í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Alda Hrönn sagði í erindi sínu að umfang mansals væri verulegt. Talið sé að 20,9 milljónir manna séu seldir mansali í heiminum og að hagnaðurinn á bak við mansal sé um 150 milljarðar Bandaríkjadala. Fórnarlömbin væru einnig ung, meðalaldurinn í vændi í Bandaríkjunum væri til dæmis tólf ár.

„Þetta er alls staðar“

Hún benti á að staðalímynd fórnarlamba mansal væri jafnan, í huga almennings, fáklæddar konur út á götu sem selja kynlífsþjónustu. „En þetta er svo fjölþætt. Þetta er alls staðar,“ sagði hún.

Til þess að bera kennsl á mansal þyrftum við að hafa þekkingu og vita að hverjum við erum að leita. „Þetta snýst um að skilja það sem þú sérð og trúa því. Þetta er verulega ljótur heimur,“ nefndi hún. Við þyrftum að skilja aðstæður fólksins og hvaðan það kemur og eins átta okkur á sambandinu á milli kvalarans og þolandans. Stokkhólmsheilkennið væri yfirleitt fyrir hendi.

Alda Hrönn benti enn fremur á að fólk á flótta, í leit að betra lífi, væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu fyrir mansali. Þetta ætti einkar vel við þessi misserin, vegna þeirra fjölda flóttamanna sem flýr nú stríð í heimalöndum sínum og leitar til Evrópu. Talið væri að um tíu þúsund börn væru nú týnd í Evrópu. „Hvar enda þessi börn?“ Börn, fátækir, atvinnulausir, fatlað fólk, veikt fólk og fólk sem hefur alist upp við erfiðar aðstæður væri einnig í viðkvæmri stöðu fyrir mansali.

Betur má ef duga skal

Hún sagði dagsljóst að mansal þrífðist hér á landi. Það væri raunveruleikinn. Þrír dómar hefðu hér gengið um mansal og menn dæmdir í fjögurra og fimm ára fangelsi. Birtingarmyndirnar væru víða, svo sem í ferðaþjónustu, byggingariðnaði, fjölskyldufyrirtækjum, hreingerningafyrirtækjum, fiskvinnslu, á veitingastöðum og svo framvegis.

Við gætum öll gert eitthvað í baráttunni gegn mansali. Ríki og sveitarfélög gætu til að mynda gætt þess þegar það býður út þjónustu að það sé tryggt að launin séu við hæfi – að þau séu ekki langt undir útboðsskilmálum. Þá gætu fyrirtæki jafnframt lagt baráttunni lið og tekið skref gegn mansali, líkt og dæmi eru um í Bandaríkjunum. Þar hafa hótelkeðjur til dæmis útvegað fjármagn í baráttuna og boðið þolendum mansals störf á meðan þeir ná sér aftur á strik.

„Við höfum náð ansi langt. Allar þjóðir eiga við þennan málaflokk og erum við þar engir eftirbátar. En betur má ef duga skal,“ sagði Alda Hrönn.

Frétt mbl.is: Ekki einkamál lögreglunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert