Mansal þrífst á ólíklegustu stöðum

Mansal er einn stærsti angi skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum.
Mansal er einn stærsti angi skipulagðrar glæpastarfsemi í heiminum. AFP

Það má segja að mikil vitundarvakning hafi orðið um mansal hér á landi á undanförnum árum. Áfram þarf þó að auka fræðslu og forvarnir og þá er tímabært að endurskoða lagalegar skilgreiningar á mansali í almennum hegingarlögum. Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Hildar Dungal, lögfræðings í innanríkisráðuneytinu, á málþingi um mansal í Iðnó í morgun.

Hildur sagði að mansal væri fjölþjóðleg skipuleg brotastarfsemi sem virti engin landamæri. Þess vegna þyrftu íslensk stjórnvöld að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Það hefðu þau gert með því að taka upp alþjóðlegar skuldbindingar, annars vegar Palermó-samning Sameinuðu þjóðanna, sem kveður á um aðgerðir gegn mansali, en ákvæði hans voru innleidd í íslensk lög árið 2009, og hins vegar samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali sem tók gildi hér árið 2012.

Á meðal ræðumanna á málþinginu, sem var haldið á vegum innanríkisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, var einmitt Petya Nestorova, framkvæmdastjóri samningsins. Fjallaði hún um ákvæði og markmið samningsins, að koma í veg fyrir mansal og berjast gegn því sem og að standa vörð um mannréttindi fórnarlamba þess.

Nestorova fundaði með fulltrúum íslenskra stjórnvalda og þeirra stofnana sem koma að mansalsmálum í gær og fjallaði þá um þau atriði sem bætur mætti fara hér á landi.

Áhersla lögð á aukna fræðslu

Í erindi sínu benti Hildur á að íslensk stjórnvöld hefðu lagt fram tvær aðgerðaáætlanir gegn mansali. Þeirri fyrri, sem var samþykkt 2009, var fyrst og fremst ætlað að skilgreina umfang mansals og stíga fyrstu skrefin til forvarna. Árið 2012 var önnur áætlun samþykkt sem er enn í gildi en tilgangur hennar er að byggja upp skilvirkt og varanlegt kerfi. Er megináherslan þá lögð á forvarnir, aðstoð og vernd, réttarvörslukerfið og samstarf.

Þá var komið á fót óformlegum samráðshópi í byrjun árs 2014 en honum var ætlað að forgansraða verkefnum og hafa yfirsýn yfir framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar. Hildur sagði að fáir hafi vitað hvað mansal í raun væri og því hefði verið ákveðið að setja af stað ákveðið tilraunaverkefni til að auka fræðslu. Nú, fáeinum árum síðar, hefur fræðsluteymið haldið yfir sextíu fundi í hinum ýmsu stofnunum og á vinnustöðum og er eftirspurnin greinilega mikil, að sögn Hildar.

Fræðslan hefði skilað sér, meðal annars í fleiri málum á borði lögreglu. Næstu skref væri að endurskoða lagalegar skilgreinar á mansali í hegningarlögum, en sú vinna fer senn að hefjast, og þá þyrfti að flýta hinu formlega ferli um hvernig beri ætti kennsl á þolendur mansals. „Birtingarmyndirnar eru ótrúlega margar og mansal þrífst á ólíklegustu stöðum. Það er hér allt í kringum okkur,“ sagði Hildur að lokum.

Fréttir mbl.is:

Halda tryggð við kvalara sinn

Ekki einka­mál lög­regl­unn­ar

Hildur Dungal, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu.
Hildur Dungal, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu. mbl.is/Þorkell
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert