Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist vera með ónot í maganum vegna frumvarps um aflandskrónur sem var lagt fram á Alþingi í dag.
„Þegar maður er að fjalla um svona stóra fjármálagjörninga þá á maður að vera með ónot í maganum. Maður á að vera óöruggur og þannig líður mér,“ sagði Birgitta á Alþingi.
Hún sagði fjármálagjörningana mjög flókna og kynninguna á frumvarpinu yfirborðslega. Einnig taldi hún að betra hefði verið að bíða með frumvarpið þangað til nýtt þing væri komið til starfa svo að nægt traust væri fyrir hendi.
„Við getum ekki horft framhjá því að okkar skattamálaráðherra var með aflandsfélag. Í mörgum öðrum löndum væri ráðherra, þó að hann væri ekki ráðherra fjármála, búinn að segja af sér eða stíga til hliðar,“ sagði Birgitta. „Núna erum við að fjalla um einn stærsta fjárflutningagjörning í sögu landsins og hann er í umboði ráðherra sem nýtur ekki mikils trausts á meðal þjóðarinnar. Ég er hugsi yfir því.“
Hún bætti við að fjórir sjóðir eða félög eigi 50% af aflandseignunum sem um ræðir. Sex aðilar eigi 65%. „Ég hef ekki getað fengið nein svör við því hverjir þetta eru í raun og veru. Mér finnst það mjög alvarlegt. Við erum að fara í gjörning sem er ómögulegt að segja hvort að sé brunaútsala eða ekki. Við getum ekki verið fullviss um neitt í þessu.“