Það skýrist væntanlega í næstu viku hvernig standa á að rannsókn á einkavæðingu bankanna á síðasta áratug. Um þrjú og hálft ár eru liðin síðan þingsályktunartillaga þess efnis var samþykkt á Alþingi.
Málið var til umfjöllunar á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag. Ögmundur Jónasson, formaður nefndarinnar, segst í samtali við mbl.is vonast til þess að nefndin komist að niðurstöðu í næstu viku um hvernig standa eigi að rannsókninni.
„Við áttum í dag fund með umboðsmanni Alþingis og lögfræðingum þingsins þar sem við fórum yfir það með hvaða hætti við ætlum að nálgast málið. Við stefnum að því að komast að niðurstöðu í næstu viku,“ segir Ögmundur, en nefndin fundar næst á þriðjudag.
Samkvæmt þingsályktunartillögunni, sem samþykkt var í nóvembermánuði 2012, skal skipa þriggja manna rannsóknarnefnd sem rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankanum og Búnaðarbanka Íslands á árunum 1998 til 2003.Nefndin á meðal annars að meta þær afleiðingar sem einkavæðingin hafði fyrir íslenskt samfélag. Átti hún að skila forseta Alþingis skýrslu ekki síðar en 1. september 2013.
Málið hefur hins vegar tafist lengi, af ýmsum ástæðum. „Það kom frumvarp frá forsætisnefnd þingsins um hvernig við eigum að gera þessar rannsóknir á vegum Alþingis markvissari en áður var og það setti málið allt í biðstöðu. Nú er það frumvarp komið fram, nefndin er búin að fjalla um það, senda frá sér sína tillögu þar að lútandi og nú erum við, í ljósi þess, að skoða hvernig við ráðumst í þessa rannsókn sem samþykkt var haustið 2012,“ segir Ögmundur.
Frétt mbl.is: Samþykkt að rannsaka einkavæðingu bankanna