„Þetta liggur þungt á öllum“

BDSM Ísland hefur verið tekið undir regnbogaregnhlíf Samtakanna '78. Ekki …
BDSM Ísland hefur verið tekið undir regnbogaregnhlíf Samtakanna '78. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvort félagið eigi heima þar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Unnsteinn Jóhannsson, stjórnarmaður í Samtökunum´78, segir klofninginn sem þar hefur orðið vera mjög erfiðan fyrir alla.

„Þetta er náttúrulega bara hundleiðinlegt. Þetta liggur þungt á öllum,“ segir Unnsteinn. Um 85 manns hafa sagt sig úr félaginu, líkast til vegna ákvörðunar um að veita BDSM á Íslandi aðild að félaginu á aðalfundi í byrjun mars.  Um 600 borgandi félagar voru í Samtökunum´78 í upphafi þessa árs en skráðir félagar um 1.100.

Nýr aðalfundur ekki boðaður

Samkvæmt niðurstöðu lögfræðiálits Velunnara Samtakanna ´78, sem eru mótfallnir aðild BDMS á Íslandi að félaginu, var aðalfundurinn ólögmætur og er lagt til að stjórn þess boði til nýs aðalfundar sem fyrst. Í lögfræðiálitin kemur einnig fram að breyta þurfi lögum félagsins.

Frétt mbl.is: Aðalfundur Samtakanna´78 ólögmætur

„Við erum að ræða málin saman í stjórninni. Við erum alltaf tilbúin til að finna leiðir til sátta enda finnst okkur þetta ömurlega leiðinlegt á alla vegu,“ segir Unnsteinn, spurður út í stöðu mála hjá félaginu. Nýr aðalfundur hefur ekki verið boðaður.

Laganefnd stofnuð

Hann bætir við að Samtökin ´78 hafi stofnað laganefnd sem hefur fengið það verkefni að ræða við félagsfólk um hvernig það vill að lög félagsins líti út. Þar verður megináherslan lögð á fyrstu grein núverandi laga þar sem fjallað er um markmið samtakanna og verkefni. Einnig verður lagst í heildarendurskoðun á lögununum frá a til ö.

„Það var ljóst eftir fundinn 5. mars þegar óánægjuraddir fóru að heyrast að þessi lög eru svolítið veik og þjóna félaginu ekki nægilega vel. Við erum að reyna að fá fólk til að koma að borðinu og ræða málin þannig að við getum fundið samhljóm með félagsfólki,“ segir hann.

Dýpra sár að ýfast upp

„Átökin eru stærri en einn aðalfundur og eiga líklegast rætur langt aftur í sögu Samtakanna ´78 og ágreiningurinn er fyrst og fremst hugmyndafræðilegur,“ bætir Unnsteinn við um deilurnar vegna BDSM á Íslandi.  „Þetta er miklu dýpra sár sem er að ýfast upp núna. Við trúum því að samtal og umræðufundir séu það eina sem virkar.“

Skrítin staða

Hann segir stöðuna í félaginu vera nokkuð skrítna. Mikil gróska sé í fræðslumálum og starfið sé á fullri ferð áfram. „Við höfum aldrei séð jafnmarga sækja opin hús og taka þátt í hinu almenna starfi. Á hinn bóginn erum við með þessa erfiðleika, þannig að þetta hefur verið svolítið sérstök staða sem við stöndum frammi fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka