„Yfirvinnubannið hefur ekki góð áhrif. Þetta truflar allt áætlunarflug. Við höfum líka þurft að flýta flugum þar sem þurft hefur að loka eftir ákveðinn tíma. Þetta er ekki gott,“ segir Hörður Guðmundsson forstjóri flugfélagsins Ernis um áhrif yfirvinnubanns flugumferðarstjóra.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur átt í kjaradeilum við Isavia að undanförnu.
„Flugáætlanir eru gerðar og fólk treystir á að komast á milli staða á réttum tíma. Fólk á stefnumót í borginni við lækna eða aðra. Þetta hefur áhrif á samgöngurnar,“ bætir Hörður við.
Hann segir að ekki sé mikill fyrirvari á seinkununum. „Það er ekki mikill fyrirvari. Við reynum að láta alla farþega virta með því að hringja út. En það skapar álag að þurfa að hringja í ala farþega. Yfirvinnubannið er slæmt að því leyti. Svo getum við stundum ekki klárað flugáætlanir á kvöldin því það lokar svo snemma.“
Hann segir að þrátt fyrir raskanirnar hafi þó gengið vel að endurskipuleggja og koma upplýsingum til farþega.
Sjá frétt mbl.is: Skelfileg áhrif á flugkennslu
„Þetta hefur haft þau áhrif að nokkrum sinnum að undanförnu hefur flugi seinkað,“ segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair um áhrif yfirvinnubannsins.
„Þetta gerist með stuttum fyrirvara. Það er erfitt að átta sig á því fyrirfram hver útkoman er. Þótt það sé vitað að hlutirnir gangi ekki jafnhratt og venjulega þá er erfitt fyrir þá sem stýra brottförum vélanna nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á hverja og eina brottför. En það eru ekki miklar tafir,“ segir Guðjón.
Sjá frétt mbl.is: Áhrif á 2.000 flugferðir