Hryggbrotnuðu í bátsferð

Slysið átti sér stað í Vestmannaeyjum í síðustu viku.
Slysið átti sér stað í Vestmannaeyjum í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Tvær konur á þrítugsaldri hryggbrotnuðu í bátsferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Ribsafari í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Þurfti önnur þeirra að gangast undir skurðaðgerð. Lögregla rannsakar málið og skipstjórinn hefur látið af störfum tímabundið. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Að sögn Anítu Óðinsdóttur, lögmanns Ribsafari varð báturinn fyrir einhverju höggi þegar hópurinn kom í land sem varð til þess að konurnar slösuðust.

Konurnar segja að báturinn hafi fallið um nokkra metra í ferðinni, með fyrrgreindum afleiðingum. Þar að auki meiddist önnur þeirra í andliti þegar höfuð hennar skall í bátinn þegar hann kom niður. Konurnar voru fluttar á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum þar sem læknir taldi að þær hefðu aðeins tognað í baki, og gaf þeim verkjalyf. Daginn eftir fór önnur þeirra í röntgenmyndatöku á Landspítalanum þar sem í ljós kom að hún hefði hryggbrotnað illa. Fór hún í skurðaðgerð. Hin konan hryggbrotnaði einnig, en meiðsli hennar voru ekki eins alvarleg.

Atvikið var tilkynnt til Vinnueftirlitsins og lögreglu, sem rannsakar nú málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert