Hafið þið heyrt um Texas Magga - mann sem steikir hamborgara? Sá heitir réttu nafni Magnús Ingi Magnússon og þurfti að draga sig úr framboði til forseta Íslands í vikunni eftir að ljóst varð að hann myndi ekki ná tilskildum fjölda undirskrifta.
Hann hefur þó ekki sagt skilið við stjórnmáladrauminn enn og rennir hýru auga til alþingiskosninganna í haust. Hann ræddi við mbl.is um ferlið að baki framboði sínu.
„Það voru svo margir þegar ég fór fram, 16 manns - allskonar gott fólk. Það voru allar tegundir af fólki, rútubílstjóri, samkynhneigðir menn, margar fínar konur og allskonar fólk og þá hugsaði ég með mér: „Afhverju ekki kokkur, maður? Þetta er að fara út í svona eitthvað...“ Og ég spurði bara vini mína afhverju ekki ég?“
Magnús fékk mikla athygli í kjölfar framboðs síns sem hann segist hafa haft gaman af, hann hafi verið maður fólksins. Hann hafi reynt allt hvað hann gat til að ná í nægar undirskriftir fyrir framboð sitt og m.a. gefið 1.200 hamborgara. Honum telst til að mest hafi hann fengið 1,3 prósent fylgi, sem hann hafi verið ánægður með, en eftir að „turnarnir“ bættust í kosningabaráttuna hafi það minnkað. Loks hafi orðið ljóst að honum myndi ekki takast að safna þeim undirskriftum sem til þurfti.
„En! Mér fannst þetta svo gaman að ég fór að pæla í þessu öllu af því að ég hef skoðanir á hlutunum. Nú er það bara Magnús Ingi á þing. Ég er með mörg baráttumál sem eru mjög svona umdeild og ég er með skoðanir á því og ég óska eftir stjórnmálaafli til að vinna með mér.“
Áður en Magnús er kvaddur fær hann að biðja íslensku þjóðina afsökunar á mynd af Donald Trump sem hékk á vegg Texas-borgara.
„Það er búið að vera þvílíkt bara, menn búnir að hóta mér, maður, og ætla ekki að koma inn á Texas-borgara og ég veit ekki hvað. Þetta var svona í gamni gert.“
Magnús segist ekki hafa gert sér grein fyrir hversu mikið hatur beindist að Trump.
„Þarna hef ég kannski bara farið yfir strikið og ég er bara mannlegur og ég vil biðja íslensku þjóðina afsökunar á þessu spaugi mínu með Donald Trump.“