Tíu skiluðu inn framboði

mbl.is/Ófeigur

Tíu skiluðu inn framboði til embættis forseta Íslands og var þeim og umboðsmönnum þeirra boðið að sitja fund í dag þar sem þeim gafst tækifæri á að koma athugasemdum á framfæri. Á fundinum var frambjóðendum greint frá því að fyrir lok framboðsfrests á miðnætti í gær hefðu tíu skilað inn framboði.

Á fundinum fór Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, yfir næstu skref með frambjóðendum og gafst fundarmönnum kostur á að kynna sér gögn sem lágu frammi.

mbl.is/Ófeigur

Í frétt ráðuneytisins eru nöfn þessara tíu einstaklinga birt og verða þau birt hér að neðan í stafrófsröð: 

  • Andri Snær Magnason 

  • Ástþór Magnússon Wium 

  • Davíð Oddsson 

  • Elísabet Kristín Jökulsdóttir

  • Guðni Th. Jóhannesson 

  • Guðrún Margrét Pálsdóttir

  • Halla Tómasdóttir 

  • Hildur Þórðardóttir 

  • Magnús Ingberg Jónsson

  • Sturla Jónsson

Fara yfir gögn og tilkynna formlega um frambjóðendur í næstu viku

Ráðuneytið mun á næstu dögum fara yfir það hvort framboðunum fylgi tilskilin gögn og auglýsa í kjölfarið hver séu formlega í kjöri til forsetaembættisins 25. júní 2016 eins og kveðið er á um í áðurnefndri 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands.

Í frétt ráðuneytisins segir að auglýsingin verði birt í síðasta lagi næstkomandi föstudag, 27. maí 2016 og afgreiðir ráðuneytið þá jafnframt öll framkomin skjöl til Hæstaréttar Íslands eins og lög kveða á um.

mbl.is/Ófeigur

Þá var upplýst um það á fundinum í morgun að Magnús Ingberg Jónsson hefði sjálfur lýst því yfir að hann hefði ekki náð að skila til ráðuneytisins nægilegum fjölda meðmælenda. Hann hefði óskað eftir fresti fram á mánudagskvöld til að afla fullnægjandi gagna en verið upplýstur um á fundinum að ekki væru lagaheimildir til að verða við því.

„Í 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, segir að framboðum til forsetakjörs skuli skila eigi síðar en 5 vikum fyrir kjördag til ráðuneytisins ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir. Einnig segir í lögunum að ráðuneytið skuli auglýsa í útvarpi og Lögbirtingablaðinu innan viku hver séu í kjöri til forsetaembættisins,“ segir í frétt ráðuneytisins.

mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka