Birgitta styður frumvarpið ekki

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, ætlar ekki að styðja frumvarp Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, aflandskrónufrumvarpið svokallaða, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

Hún óttast að lögin séu ekki nægilega vel skrifuð og gagnrýnir nauman tíma sem þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna höfðu til að kynna sér frumvarpið. Sagði hún að þingmenn hefðu átt að fá frumvarpið í hendurnar undir trúnaði viku áður en það var lagt fyrir þingið.

„Ég styð að við afnemum gjaldeyrishöft en ég get ekki stutt málið af sannfæringu því það eru vafaatriði í því sem lúta að þáttum sem við Píratar leggjum mikla áherslu á, t.a.m. friðhelgi einkalífs,“ sagði Birgitta í ræðustól Alþingis og bætti við að frumvarpið muni ekki aflétta höftum af íslenskum almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Þá liggi heldur ekki fyrir hvenær höft verði afnumin á aðra en aflandskrónueigendur.

Þá gagnrýndi Birgitta fjármálakerfi heimsins á grundvelli þess að ekki liggi fyrir hvaða aðilar það séu sem eiga aflandskrónur hérlendis og að engin leið sé til staðar til þess að komast að því hverjir eigendurnir séu.

„Enginn veit hvaða aðilar eiga í þessum kröfum. Mér finnst það satt best að segja ákveðin birtingarmynd þess hve gallað fjármálakerfi heimsins er,“ sagði Birgitta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert