„Dvalarstaðir hælisleitenda eru heimili þeirra og rétt eins og aðrir skal fólk sem hingað kemur í hælisleit njóta friðhelgi heimilis og einkalífs. Þetta leiðir af 71. gr. stjórnarskrár Íslands. Allar gestakomur á heimilum þar sem hælisleitendur dvelja í sameiginlegu húsnæði eru af þessari ástæðu óheimilar að meginreglu.“
Svona hefst tilkynning Útlendingastofnunar vegna umfjöllunar sjónvarpsþáttarins Hæpið um málefni flóttafólks þar sem m.a. var sýnt frá Arnarholti þar sem stofnunin er með vistarverur fyrir hælisleitendur.
Í tilkynningu stofnunarinnar segir að heimilismenn viti að þeim sé ekki heimilt að bjóða til sín gestum, þær upplýsingar sem og aðrar húsreglur séu afhentar heimilismönnum og hanga uppi á vegg eins og raunar sást í þættinum.
„Margir hælisleitendur hafa sótt um vernd vegna þess að þeir óttast ofsóknir yfirvalda í heimalandi sínu, til dæmis vegna stjórnmálaþátttöku sinnar, og öryggis þeirra vegna getur verið varhugavert fyrir þá að koma fram í fjölmiðlum. Óábyrgt væri af Útlendingastofnun að skapa aðstæður fyrir slíkt með því að heimila fjölmiðlum að taka viðtöl og taka upp efni í hljóði eða mynd á dvalarstað hælisleitenda því taka verður tillit til þess að sjáist aðrir en þeir sem eru til viðtals í mynd kann það að vekja athygli yfirvalda í heimalandi eða annarra aðila sem æskilegt er að viti ekki hvar viðkomandi er niðurkominn. Hælisleitendum er að sjálfsögðu heimilt að tjá sig við fjölmiðla en viðtöl við þá verða að fara fram utan sameiginlegs húsnæðis þar sem aðrir hælisleitendur búa.“
Í tilkynningunni segir að jafnframt séu hælisleitendur upp til hópa í afar viðkvæmri stöðu, hafi margir sætt pyntingum og ofbeldi eða þurft að flýja stríðsátök. Því séu reglur um gestakomur einnig ætlaðar til að hindra óþarfa umrót og rask í lífi þeirra.
Stofnunin segir fjölmiðlafólk almennt hafa sýnt reglunum skilning og því hafi viðtöl við hælisleitendur farið fram utan sameiginlegra dvalarstaða. Bendir stofnunin á að þáttastjórnendur Hæpsins viðurkenni í þættinum að hafa ekki aflað leyfis hjá Útlendingastofnun fyrir veru sinni í Arnarholti en tekur fram að staðarhaldarinn hafi ekki farið með rétt mál þegar hann sagði að birting mynda af hælisleitendum hefði í för með sér að þeir misstu stöðu flóttamanns og yrði vísað úr landi.
Þá vísar Útlendingastofnun í tölvupóst sem sendur var stjórnendum RÚV vegna málsins.
„Útlendingastofnun hefur fengið þær upplýsingar að þáttagerðarmaður RUV, Unnsteinn að nafni sé nú staddur í Arnarholti á Kjalarnesi til að taka viðtöl við hælisleitendur innandyra. Hann kveðst hafa leyfi hluta þeirra sem þar búa. Ekki nægir að fá leyfi einstakra heldur þarf heimild allra ef viðtöl fara fram í vistarverum. Hér er um viðkvæmt samfélag að ræða og innganga með þessum hætti er ekki við hæfi ef tekið er mið af hagsmunum einstaklinganna. Séu einhverjir tilbúnir til að ræða við Unnstein, er sjálfsagt að það fari fram fyrir utan, en ekki innandyra sem eru hýbýli þessara manna.
Þegar hafa verið gefnar skýringar á því hvers vegna slíkt háttalag er óviðeigandi og getur haft skaðleg áhrif á þá sem þar búa. Stofnunin gerir þá kröfu að friðhelgi hælisleitenda sé virt og hafi myndefni verið aflað með þessum hætti, verði það ekki birt.“
Útlendingastofnun ítrekar að til að fullnægja sjónarmiðum um friðhelgi heimilis og einkalífs þurfa allir heimilismenn að veita samþykki sitt fyrir heimsókn fjölmiðils á dvalarstað og segist stofnunin þurfa að fá staðfestingu á slíku samþykki áður en af slíkri heimsókn gæti orðið.
„Þessi skilyrði setja tjáningarfrelsi hælisleitenda að sjálfsögðu engar skorður enda er þeim frjálst að mæla sér mót við fjölmiðla og aðra utan dvalarstaða sinna. Í samtali við umsjónarkonu sjónvarpsþáttarins Hæpið var ítrekað af hálfu Útlendingastofnunar að myndefnisins hefði verið aflað í heimildarleysi og þess óskað að það yrði ekki birt.“