Getur borg verið sjálfbær?

Í Vancouver í Kanada er stuðlað að umhverfisvænum störfum og …
Í Vancouver í Kanada er stuðlað að umhverfisvænum störfum og staðbundnum matvælaiðnaði. Wikipedia

3,9 milljarðar manna, eða um helmingur allra jarðarbúa, búa í þéttbýli. Árið 2050 er gert ráð fyrir því að sú tala muni hafa tvöfaldast. Samkvæmt nýjustu skýrslu alþjóðlegu umhverfissamtakanna WorldWatch Institute munu borgir halda áfram að vaxa, en einu álitamálin eru um það hvernig þær munu gera það.

Á hverju ári gefa WorldWatch Institute út fyrrnefnda skýrslu í bók (State of the World Report) þar sem farið er yfir þau umhverfismál sem efst eru á baugi í heiminum hverju sinni. Til að hvetja til umræðu og miðlunar nýrra lausna í tengslum við þema ársins 2016 – getur borg verið sjálfbær? – hratt WorldWatch Institute af stað norrænni ráðstefnuröð sem fram fer í höfuðborgum Norðurlandanna nú í maí. Fjórða og síðasta ráðstefnan fór fram í Norræna húsinu í dag.

Sjálfbærar borgir byrja og enda hjá borgurum

Stephanie Loveless, frá WorldWatch Institute Europe, hélt erindi á ráðstefnunni í dag þar sem hún sagði að vöxtur borga krefðist athygli okkar – og þá sérstaklega hvernig við gætum gert borgir okkar að betri stað til að búa á, bæði fyrir okkur og jörðina sjálfa. Borgir standa frammi fyrir áskorunum sem snúa m.a. að fólksfjölgun og loftslagsbreytingum.

„Sérhver borg stendur frammi fyrir mismunandi viðfangsefnum, svo þegar kemur að því að skilgreina sjálfbæra borg er ekki ein formúla sem virkar fyrir allar borgir. Þó eru undirliggjandi reglur sem stuðla að góðu, sjálfbæru borgarskipulagi; í fyrsta lagi góðir stjórnarhættir í borginni, öflugur leiðtogi borgarinnar sem þekkir borgina vel og getur brugðist við um leið og mál koma upp. Þá er þátttaka borgara nauðsynleg til að viðhalda sjálfbærum borgum, en vel skipulagðar og sjálfbærar borgir byrja og enda hjá borgurum.“

Ólíkar leiðir ólíkra borga að sjálfbærni

Í bókinni er fjallað um mikilvægustu áskoranir sem borgir og bæjarfélög um allan heim eiga við að etja í umhverfismálum og er þar nefndur fjöldi dæma um lausnir til að stuðla að sjálfbærari samfélögum.

Loveless nefndi nokkrar borgir sem dæmi, þ.á m. Freiburg í Þýskalandi. Þar hefur lengi verið unnið að sjálfbærni, eða frá áttunda áratug tuttugustu aldar. Sagði hún að þar væri ekki aðeins verið að tengja umhverfið og loftslagið sjálfbærni, heldur einnig félagsleg mál og menningu. Benti hún á að í borginni hafi m.a. verið búinn til menntunarsjóður til að stuðla að sjálfbærri lífsstíl fyrir alla. Þá sé lagt mikið upp úr því í borginni að lágtekjufólk geti einnig búið þar og séu í byggingu íbúðir fyrir fólk með lágar tekjur svo það eigi einnig tök á að búa þar.

Loveless talaði einnig um „græna uppbyggingu“ í borgum, þ.e.a.s. notkun náttúrulegra svæða til að veita efnahagslega þjónustu. 

Þá nefndi hún Vancouver í Kanada, en þar var samþykkt aðgerðaráætlun til að stuðla að grænni borg. Þar fengust hugmyndir frá yfir 30 þúsund manns í gegnum samfélagsmiðla um hvernig væri hægt að stuðla að sjálfbærari borg. Þá sé þar einnig stuðlað að umhverfisvænum störfum og staðbundnum matvælaiðnaði. Þannig styðji borgin við landbúnað innan borgarinnar og á slíkum stöðum fái fólk vinnu sem hefur t.d. átt við fíknivanda að stríða eða er heimilislaust. Þá eru fundnir markaðir fyrir vörur sem eru ræktaðar á þessum stöðum og segir Loveless því marga kosti við það að vera með náttúruleg svæði sem þessi inni í borgum.

Auk þess nefndi hún Pune á Indlandi sem dæmi en þar hefur ríkið lagt fjármagn til hverfanna, sem sjálf fá að ráða hvernig því skuli varið og fá þannig að taka þátt í því að mynda stefnu innan borgarinnar. Einnig nefndi hún Portland í Bandaríkjunum þar sem gerðar hafa verið alhliða sjálfbærar áætlanir og t.d. búnir til reiðhjólastígar um alla borgina. Þar sé mikið lagt upp úr því að eiga samtal við borgarana.

Í Durban í Suður-Afríku séu notaðar leiðir sem snúa að sjálfu samfélaginu. Þá eigi fólk t.a.m. kost á því að taka þátt í því að planta trjám og fá í staðinn mat og niðurgreidd skólagjöld. Í Medellin í Kólumbíu sé unnið að samgöngukerfi sem tengir hverfi sem eru fátæk við restina að borginni. Með því megi strax sjá framför, lækkun í glæpatíðni og minni mengun.

Stærsta skrefið að stuðla að endurnýjanlegri orku

Samkomulag um aðgerðir í loftslagsmálum náðist í París í desember sl. og standa borgir því tilbúnar til að efla þegna sína til þátttöku í að byggja upp sjálfbæra framtíð, samkvæmt skýrslunni. Þar kemur fram að hugsanlega sé stærsta skrefið í átt að sjálfbærri framtíð borga að búa til hagkerfi sem stuðla að endurnýjanlegri orku.

Ráðstefnan í dag var samstarfsverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar, WorldWatch Institute í Evrópu, Norræna hússins og Reykjavíkurborgar. Ráðstefnan tók fyrir bæði almenna þróun og dæmi um grænar lausnir í arkitektúr, byggingariðnaði, skipulags- og samgöngumálum í Evrópu, á Norðurlöndunum og á Íslandi.

Stephanie Loveless fjallaði um skýrsluna á ráðstefnunni í dag.
Stephanie Loveless fjallaði um skýrsluna á ráðstefnunni í dag. ljósmynd/WorldWatch Institute Europe
Losun manna á gróðurhúsalofttegundum þarf að minnka hratt og stöðvast …
Losun manna á gróðurhúsalofttegundum þarf að minnka hratt og stöðvast í náinni framtíð til að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert