Telur að sér hafi verið hótað

Bjarni Már Magnússon.
Bjarni Már Magnússon. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Forstöðumaður Hafréttarstofnunar Íslands telur sig hafa gengið of langt þegar hann hvatti lektor við Háskólann í Reykjavík til þess að endurskoða erindi sem hann hugðist flytja á ráðstefnu um hafréttarmál í Kína. Málið snerist um mögulega styrkveitingu frá stofnuninni til þess að fara á ráðstefnuna en fjallað var um málið í Kastljósi Ríkisúvarpsins í kvöld. 

Bjarni Már Magnússon, lektor við HR, hafði samband við Tómas H. Heiðar, forstöðumann Hafréttarstofnunar Íslands, í mars á síðasta ári til þess að kanna hvort stofnunin væri reiðubúin að styrkja för hans á ráðstefnuna. Tómas óskaði eftir því að fá að vita um hvað erindi hans yrði og hverjar niðurstöður þess væru. Erindið fjallaði um landgrunnsmál Kínverja og með hvaða hætti þeir gætu tryggt hagsmuni sína í þeim efnum fyrir alþjóðlegum dómstólum.

„Láttu mig endilega vita sem allra fyrst hver niðurstaða þín er hvað fyrirlesturinn varðar. Ég tel ljóst að með fyrirhuguðum fyrirlestri myndirðu óhjákvæmilega brenna ýmsar brýr að baki þér,“ sagði Tómas í bréfi til Bjarna þar sem umræddar niðurstöður færu gegn hagsmunum Íslands í hafréttarmálum. Bjarni svaraði: „Erindið beinist ekki að Íslandi en vissulega er hægt að nota þessa leið gagnvart Íslandi. En þá má spyrja aftur á móti, hvers vegna ætti Ísland að hræðast að vera dregið fyrir alþjóðlegan dómstól ef það telur að sín mál séu í góðu samræmi við alþjóðalög?“ Svar Tómasar var á þessa leið:

„Sem fræðimanni er þér í sjálfu sér frjálst að haga málflutningi þínum eins og þér sýnist. Þú hlýtur hins vegar að gera þér grein fyrir því að íslensk stjórnvöld og stofnanir á þeirra vegum eru ekki líkleg til að vilja bjóða þér til þátttöku í ráðstefnum um hafréttarmál, t.d. á vettvangi SÞ í New York eins og gert hafði verið ráð fyrir, ef þú vinnur gegn mikilvægum íslenskum hagsmunum á þessu sviði.“ Fram kom í Kastljósinu að Bjarni telur ummælin hafa falið í sér hótun.

Tómas bað Bjarna afsökunar á ummælunum í kjölfar kvörtunar Bjarna til utanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands. Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að stjórn Hafréttarstofnunar telji að samskiptin hafi verið óheppileg. Þá sé það á verksviði stjórnar að taka ákvörðun um styrkveitingar en ekki forstöðumanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert