Forsætisráðherra telur mjög álitlegt að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut í Reykjavík. Til að mynda á Vífilsstöðum í Garðabæ. Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigurðar Inga Jóhannssonar við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Steingrímur spyr hvort Sigurður telji koma til greina að reisa nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut og vísar í því sambandi til sjónarmiða forvera hans, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Spurt er hvar og þá með hvaða rökum. „Það væri að mati ráðherra mjög álitlegt að byggja nýjan Landspítala annars staðar, t.d. á Vífilsstöðum,“ segir í svari ráðherrans.
Sigurður Ingi er einnig spurður að því hvar hann telji heppilegast að nýr Landspítali rísi og hvaða forsendur séu fyrir þeirri afstöðu. Ráðherrann svarar þeirri spurningu á þá leið að fyrir liggi stefnumörkun Alþingis um endurnýjun og uppbyggingu Landspítalans og unnið sé eftir þeirri stefnumörkun. Vísar hann í þingsályktun frá því vorið 2014.