„Hvenær er nóg nóg?“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég spyr mig: Hvenær er nóg nóg?“ sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun og vísaði til þeirra upplýsinga sem umboðsmaður Alþingis segist búa yfir og varða aðild þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2003.

Hún sagði að skrifuð hefði verið löng og umfangsmikil rannsóknarskýrsla um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008, Landsdómur hefði verið kallaður saman og þá hefði Hæstiréttur verið upptekinn við að fást við svonefnd hrunmál af þessu tagi.

„Ég spyr mig: Hvenær er nóg nóg, þegar ég virðist vera eina manneskjan sem hafi áhuga á að rannsaka einkavæðingu bankanna hina seinni,“ sagði Vigdís. Hún hefur áður sagst ætla að birta gögn um einkavæðingu nýju bankanna til kröfuhafa á síðasta kjörtímabili. Brýnt væri að rannsaka hana líka.

Þá hefðu báðir bankarnir verið gefnir á einni nóttu, enginn undanfari hefði verið á því, ekkert verðmat hefði legið fyrir og engin einkavæðingarnefnd komið að málum. „Við höfum ekki hugmynd um hver á bankana í dag, bara einhverjir kröfuhafar. Eru þeir í Panamaskjölunum?“ spurði Vigdís.

Hún sagði að bæði mál, einkavæðingin upp úr síðustu aldamótum og seinni einkavæðingin, rynnu saman í einn farveg. Hún væri tilbúinn til þess að tala fyrir því að báðar rannsóknir færu fram samhliða.

„Áfellisdómur“

Vigdís sagði einnig að þessar nýju upplýsingar, sem umboðsmaður Alþingis gerði grein fyrir á fundinum, væru áfellisdómur yfir vinnu rannsóknarnefndar Alþingis. Sú vinna hefði greinilega ekki dugað fyrst nýjar upplýsingar væru að koma fram núna. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, svaraði því svo til að þarna væru um að ræða nýjar upplýsingar um þræði sem ekki var áður hægt að komast í.

Þá gagnrýndi Vigdís jafnframt að leynd væri yfir þessum ábendingum til umboðsmanns. Nafnleynd yki hættuna á því að verið væri að „dylgja um hlutina“.

Fréttir mbl.is:

Nýjar upplýsingar um þátt bankans

Þátttaka bankans vekur spurningar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert