Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í stjórn Íbúðalánasjóðs sat hjá þegar meirihluti stjórnarinnar samþykkti að selja leigufélagið Klett ehf. til Almenna leigufélagsins, sem er í rekstri fjármálafyrirtækisins GAM Management.
Þetta tilkynnti Svandís Svavarsdóttir, þingmaður vinstri grænna, í umræðum á þingi í dag. Hún sagði að ekki lægi fyrir nein úttekt á áhrifum sölunnar á leigumarkaðinn.
„Eru þetta náttúrlega töluverð tíðindi í sjálfu sér og mikil hreyfing á annars óþroskuðum leigumarkaði þar sem við vitum að leigan á Íslandi er mjög há miðað við nágrannalöndin og þarna er um að ræða opinberan aðila sem selur frá sér eignir af þessu tagi til einkaaðila sem hefur auðvitað það að markmiði að hámarka arðsemi sína. Þó að kvöð fylgi ákvörðuninni um að óheimilt sé að hækka leiguna í tólf mánuði má velta fyrir sér hversu lengi sú kvöð haldi eftir þann tíma,“ sagði Svandís.
Eins og kunnugt er var leigufélagið Klettur stofnað árið 2013 utan um 450 leiguíbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs. Félagið var auglýst til sölu í febrúar síðastliðnum og bárust þrjú skuldbindandi tilboð í félagið.
Almenna leigufélagið átti hæsta tilboð, að fjárhæð 10.101 milljón króna. Eftir kaupin verður félagið stærsta leigufélag á Íslandi sem býður almenningi upp á íbúðir í langtímaleigu.
Bókun Drífu Snædal, fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í stjórninni, um söluna var svo:
„Meirihluti stjórnar Íbúðalánasjóðs hefur tekið ákvörðun um að selja Klett leigufélag. Leigumarkaðurinn á Íslandi er enn í mótun, húsnæðisverð verulega íþyngjandi og nauðsynlegt að stefna í átt að félagslegum lausnum í stað leigufélaga sem rekin eru í hagnaðarskyni. Með sölu á Kletti fer forgörðum tækifæri til að efla félagslegt leiguhúsnæði í samfélagslegri eigu til hagsbóta fyrir almenning og vegur það þyngra en að styrkja fjárhagslega afkomu sjóðsins með sölunni. Undirrituð situr hjá við ákvarðanir er varða sölu á Kletti.“
Frétt mbl.is: Félagið selt á rúma 10 milljarða