Hjólreiðafólki hefur undanfarið fjölgað talsvert á Íslandi og sést það ekki síst á stóraukinni umferð þess á höfuðborgarsvæðinu. Borgaryfirvöld í Reykjavík og í nágrannabæjarfélögum hafa undanfarin ár byggt upp talsvert af hjólastígum og strax í vor var byrjað að hreinsa þá af miklum sandi sem þar safnast saman yfir vetrartímann. María Ögn Guðmundsdóttir, hjólreiðakona og hjólaþjálfari, segir hreinsunarstarfið taka óþarflega langan tíma og valda hættu fyrir hjólreiðafólk.
María vakti athygli á því á Facebook-hópnum Samgönguhjólreiðar í gær að enn væri talsvert um stíga sem Reykjavíkurborg hefði ekki sópað. Um væri að ræða marga af stærri stígum borgarinnar til viðbótar við minni og fáfarnari stíga.
Vísaði hún til þess að 18. mars hefði komið frétt á vef borgarinnar um að hreinsunarstarf stíga væri hafið og að það ætti að taka um átta vikur. Síðan þá eru liðnar tæplega 10 vikur, en í verkáætlun vorhreinsunar borgarinnar kemur fram að gert sé ráð fyrir að sópun stíga og gangstétta innan hverfa ljúki í 23. viku ársins. Enn eru rúmlega tvær vikur eftir af þeim tímaramma.
Í samtali við mbl.is bendir María á að þeir sem noti hjól fyrir samgöngur eða íþróttaiðkun séu löngu byrjaðir á fullu að hjóla um borgina. Þannig hafi t.d. hjólaátakið Hjólaðu í vinnuna klárast í gær. Segir hún að mögulega þyrfti að skoða að klára hreinsunina fyrr en sé í áætlun núna miðað við vinsældir hjólreiða.
Hún tekur fram að hjólasamfélagið sé almennt mjög sátt með þá þróun sem hafi átt sér stað í stígagerð og þau verkefni sem séu fram undan. Það þurfi þó að láta kné fylgja kviði og hreinsa þá nýju stíga sem hafi verið lagðir.
María er hjólaþjálfari og er bæði að kenna börnum og fullorðnum hjólreiðar og öryggismál í tengslum við þær. Segir hún að hluti af því sé að kenna fólki að beita sér á hjólum en ekki síður að forðast hættur sem geti orðið á leiðinni. Segir hún sand á stígum vera meðal þess sem geti reynst mjög hættulegt. Þannig sé sandurinn eins og hálka ef verið sé að hjóla yfir slíka fleti og sérstaklega þegar beygjur séu teknar við þannig aðstæður. „Þetta er bara hættulegt,“ segir hún.
Nefnir María að það stingi sérstaklega að sjá ósópaða stíga nálægt skólum þar sem börn komi gjarnan á hjólum. Þannig sé það til dæmis í kringum Sæmundarskóla í Grafarholti.
Þá nefnir hún einnig stíginn frá Nauthóli að Flugvallarvegi undir Öskjuhlíð. Segir hún að þar hafi sandurinn aðeins færst til hliðar og það virðist vera sem borgaryfirvöld séu að bíða eftir að hann ýtist allur út af stígnum. Það sé nýr og mjög fjölfarinn stígur og segist hún undrandi að hann sé ekki í forgangi, heldur séu 20 sentimetra hrúgur þar í köntum stígsins. „Þarna er útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins og það er ótrúlegt að ekki sé búið að sópa,“ segir hún, en frá stígnum liggur fjöldi annarra stíga upp í Öskjuhlíðina.
María bendir á að hreinsun göngu- og hjólastíga sé ekki eingöngu fyrir hjólandi því hún sé einnig fyrir gangandi og þá sem séu á línuskautum. Það sé því í raun lýðheilsumál að klára hreinsun sem þessa sem fyrst.
Vorið hefur að sögn Maríu verið mjög mikill tími fyrir hreinsun og því skjóti það skökku við að svo mikið sé eftir af stígahreinsun þegar stutt sé í áætluð verklok.